Skip to main content

Félag sjúkraþjálfara og heilbrigðisráðuneytið skrifuðu undir nýjan samning fyrr í kvöld. Formaður Félags sjúkraþjálfara segir samninginn endurspegla störf stéttarinnar betur en sá fyrri gerði. 
Í lok janúar barst Félagi sjúkraþjálfara tilboð um samning frá Sjúkratryggingum Íslands. Í þeim samningi fólst m.a. 2,8% taxtahækkun, ásamt ýmsum breytingum á fyrirkomulagi starfa sjúkraþjálfara. Félagið samþykkti tilboðið, en heilbrigðisráðuneytið bað um frest í tvígang  til að vinna  betur í samningnum. Samningurinn sem síðan var undirritaður í kvöld er nánast samhljóða þessu tilboði.
Samningurinn nútímavæddur
„Þetta eru breytingar á ákveðnum gjaldaliðum, þær byggja á þeirri vinnu sem við unnum um daginn sem fólst í því að nútímavæða samninginn, sem hafði verið lítt breyttur áratugum saman, en fagið hefur þróast gríðarlega á sama tíma,“ segir Unnur Pétursdóttir, formaður Félags sjúkraþjálfara, spurð um hvað felist í nýja samningnum.
„Að auki eru þarna nýir gjaldaliðir sem endurspegla nútíma sjúkraþjálfun.“Sem dæmi um þetta nefnir Unnur að samkvæmt gamla samningnum hafi einungis verið hægt að vera með einstakling eða hóp í meðferð í einu.
„Núna er gefið tækifæri til að vera með 2-3 einstaklinga saman, sem getur t.d. verið mjög hentugt fyrir fólk sem er að koma úr liðskiptaaðgerð. Þetta þýðir að hver og einn borgar lægra gjald, sjúkraþjálfarinn fær eilítið meira í sinn vasa, Sjúkratryggingar Íslands greiða aðeins minna fyrir hvern og einn, þannig að þetta er hagstætt fyrir alla aðila. Önnur nýjung er að heimasjúkraþjálfurum er gefinn kostur á að taka fólk í styttri meðferðir,“ segir Unnur.
Ánægð með samninginn
Hún segist mjög ánægð með samninginn, ekki þurfti að leggja hann fyrir félagsmenn þar sem hann sé svo gott sem sá sem áður hafði verið samþykktur. „Auðvitað er það þannig að þegar maður leggur af stað í samningaviðræður, þá vill maður alltaf fá meira en maður fær, en já ég get sagt að ég sé mjög sátt við þennan samning.“
Ráðherra sáttur við niðurstöðuna
Kristján Þór Júlíusson heilbrigðisráðherra segist ánægður með lyktir mála. „Ég vil þakka sjúkraþjálfurum og samninganefnd sjúkratrygginga fyrir að hafa náð samkomulagi. Ég lýsi mikilli ánægju með að það skuli vera komið skipulag á þessa þjónustu, skjólstæðingum sjúkraþjálfara, ríkissjóði og sjúkraþjálfurum sjálfum til hagsbóta,“segir Kristján Þór. Hann segir að vissulega hafi nokkurrar óþreyju gætt undanfarið, en það sé eðli samningagerðar. 

tekið af mbl.is þ. 13.2.2014