Nálastungur

Forsíða » Þjónusta » Nálastungur

Nálastungur er verkjameðferð sem hefur verið þekkt á Vesturlöndum í 300 ár en hefur átt auknu fylgi að fagna frá því á 8. áratugnum. Þeim hefur verið beitt í Kína í yfir 3000 ár og vestræn nálgun byggir á þeirri þekkingu og reynslu. Smá saman eru þær að skipa sér sess meðal hefðbundina aðferða.

Nálastungur hafa verið töluvert rannsakaðar og hefur tekist að sýna fram á áhrif nálastungna við mjóbaksverkjum, verkjum í öxl, slitgigt í hnjám, mígreni, ógleði og tannpínu svo fátt eitt sé nefnt. Í meðferð sjúkraþjálfara hafa þær nýst vel gegn liðverkjum, höfuðverk og
vöðvaeymslum svo dæmi séu tekin. Auk verkjastillingar hafa nálastungur slökunaráhrif og geta hjálpað fólki sem á til dæmis erfitt með svefn.

Notaðar eru sótthreinsaðar, einnota nálar sem eru mjög grannar og frá 10-70 mm langar. Yfirleitt eru nálarnar örvaðar á einhvern hátt eftir að þeim hefur verið stungið í gegnum húð. Oftast nær með höndum en einnig með vægum rafstraum eða hita (moxa).  Fjöldi nála í hverri meðferð er breytilegur, frá 1 – 20 nálar og er meðferðartíminn frá 10 og upp í 30 mínútur.

Áhrif nálastungna til verkjaminnkunar eru m.a. talin stafa af áhrifum þeirra á verkjaboð í mænu. Einnig örva þær losun á taugaboðefnum eins og  endorfín og enkefalín sem hvort tveggja eru náttúruleg ópíum efni og leiðir aukið seyti þeirra til minni verkjaupplifunar.

Aukaverkanir eru sárafáar og vægar, áhætta er lítil ef öryggisráðstöfunum er fylgt og góð þekking á líffærafræði er fyrir hendi hjá meðferðaraðila.