Skip to main content

Nú er hafið fjáröflunarátak til styrktar Mænuskaðastofnun Íslands sem nær hámarki með beinni sjónvarpsútsendingu í opinni dagskrá á Stöð tvö á föstudaginn kemur. Landsfrægir skemmtikraftar koma fram í þættinum auk þess sem rætt verður við mænuskaddaða einstaklinga og aðstandendum þeirra. Almenningur getur lagt málefninu lið með því að hringja í símanúmerin 904-1000, 904-3000 og 904-5000 og verður þá upphæðin sem myndar seinni hluta símanúmersins gjaldfærð af símreikningi þess sem gefur. Þá er einnig hægt að leggja málefninu lið með því að kaupa gestaþraut úr tré sem seld verður á sjúkrahúsum landsins, í líkamsræktarstöðvum World Class, í verslunarmiðstöðvum, í verslunum Símans og Debenhams og á fleiri stöðum. Tekið verður á móti fjárframlögum í beinni útsendingu og munu læknar, hjúkrunarfræðingar og annað heilbrigðisstarfsfólk svara í símanúmerið 553-7600.
Áætlað er að um 3,5 – 4,5 milljónir manna í heiminum búi við mænuskaða vegna slysa. Á Íslandi eru rúmlega hundrað einstaklingar mænuskaddaðir. Nær helmingur þeirra slasaðist í umferðarslysum. Þá hlýst mænuskaði einnig af völdum íþrótta, glæpa, sjúkdóma, vinnuslysa, útreiða og af ýmiss konar falli. Meðalaldur þeirra sem skaddast á mænu er um 20 ár þannig að flestir eru mjög ungir þegar þeir verða fyrir þessari lífsreynslu. 

Mænuskaði einn alvarlegasti skaði sem einstaklingar geta hlotið og hann skilur eftir sig mikla ólæknanlega eyðileggingu. En það er alltaf von og sú von endurspeglast í tilurð Mænuskaðastofnunar Íslands, sem varð til vegna þrautseigju Auður Guðjónsdóttur, sem hefur árum saman barist fyrir því að íslenska þjóðin beiti sér fyrir því á alþjóðavísu að lækning á mænuskaða verði að veruleika. Elja Auðar hefur vakið verðskuldaða athygli og nú hafa íslensk stjórnvöld, fyrirtæki og einstaklingar tekið höndum saman og sett á fót Mænuskaðastofnun Íslands í þeim tilgangi að styðja hugsjón hennar.

Mænuskaðastofnunin var stofnuð 11. desember 2007. Stofnfélagar eru mæðgurnar Auður Guðjónsdóttir og Hrafnhildur Thoroddsen, Exista, Seltjarnarnesbær, Heilbrigðisráðuneytið og Stoðir sem eru aðalstyrktaraðili og bakhjarl landssöfnunarinnar.

Markmið Mænuskaðastofnunar Íslands er að vera leiðandi afl á sviði úrræða fyrir mænuskaddaða og vinna að því með öllum tiltækum ráðum að lækning á mænuskaða verði að veruleika. Aðaltilgangur stofnunarinnar er að vekja athygli á málefninu á alþjóðavettvangi og safna fé til handa læknum, vísindamönnum og öðrum sem vinna að framförum til heilla mænusködduðum. Gagnabanki hefur verið starfræktur í tvö ár með fulltingi Alþjóða heilbrigðismálastofnunarinnar og Heilbrigðisráðuneytisins og er hugsaður sem alþjóðleg upplýsingabrú um nýjungar í meðferð við mænuskaða.

Nánari upplýsingar um landssöfnunina gefur Claudia Vennemann, framkvæmdastjóri Mænuskaðastofnunar
Íslands í síma 564-1989 og 892-6024 claudia@isci.is

Tekið af : www.isci.is