Skip to main content

Ótti hefur ekki aðeins sína eigin lykt heldur er hann líka bráðsmitandi. Lilianne Mujica-Parodi og samstarfsfólk hennar við Stony Brook-háskólann í New York hafa beinlínis fundið lyktina af óttanum – eða að minnsta kosti sýnt fram á að hún er til og bæði menn og dýr skynja hana.

Ferómónar, sem er ákveðin tegund hormóna, seitla út úr líkamanum með svita og bera með sér ákveðna lykt þegar óttaslegin manneskja á í hlut. Lyktin vekur svo viðbrögð í þeim stöðvum heilans þar sem ótti og hræðsla eiga upptök sín og getur því vakið slíkar kenndir hjá þeim sem lyktina finna.

En hvernig í ósköpunum er hægt að mæla slíkt? Parodi studdist við hóp 40 einstaklinga sem voru á leið í sitt fyrsta fallhlífarstökk og tók sýni úr svita þeirra. Til samanburðar var svo sviti fenginn að láni hjá sallarólegu fólki og þriðja hópnum svo leyft að þefa af öllu saman.

Þetta leiddi í ljós sterka fylgni milli virkni í óttastöðvum heila þeirra sem þefuðu af svita fallhlífarstökkvaranna en mun minni virkni hjá þeim sem fundu lykt af svita hinna óttalausu. Þannig lyktar óttinn og smitar út frá sér. Óttalega einfalt allt saman.

Frétt tekin af www.visir.is