Skip to main content

Í tilefni af aþjóðlegum degi einhverfu, 2. apríl, verða Einhverfusamtökin með opið hús að Háaleitisbraut 13, 4. hæð, frá klukkan 20 til 22. 
Dagskrá: -Laufey I. Gunnarsdóttir einhverfuráðgjafi mun fjalla um listsköpun kvenna á einhverfurófi.-Opnuð verður sýning á vantslitamyndum Fridu Adriönu Martins og mun hún lesa upp úr fyrstu bók sinni þar sem hún breytir upplifun sinni af einhverfu í litríkan ævintýraheim. -Einhverfusamtökin munu veita viðurkenningu fyrir vel unnin störf í þágu einhverfra.-Tónlistaratriði.-Veitingar og spjall.
Vonum við að fólk fjölmenni og fagni 2. apríl með okkur.Stjórn Einhverfusamtakanna.

Hvað er einhverfa?Einhverfa er heiti á samsafni einkenna sem tengjast truflun á taugaþroska. Skyldar einhverfu eru aðrar raskanir á svonefndu einhverfurófi (autism spectrum), meðal annars ódæmigerð einhverfa og Aspergerheilkenni, en allar tilheyra þær flokki raskana sem kallast gagntækar þroskaraskanir.
Ekki er hægt að greina einhverfu með lífeðlisfræðilegum prófum og er hún því greind með því að líta á þau einkenni sem birtast í hegðun. Til þess eru notuð ýmis þroskapróf, viðtöl við foreldra og beinar athuganir á hegðun. Raskanir á einhverfurófinu greinast oftast hjá börnum á leikskólaaldri, eftir að foreldrar eða aðrir sem umgangast þau hafa orðið varir við að hegðun þeirra sé í einhverju frábrugðin hegðun jafnaldra.
Hvernig lýsir einhverfa sér?Tvær manneskjur með einhverfu geta verið mjög ólíkar, því misjafnt er í hvaða mynd einkennin birtast og hve mikla skerðingu þau hafa í för með sér. Það sem einkennin eiga oftast sameiginlegt er að birtast á þremur sviðum:
Geta til félagslegra samskipta er oftast skert. Þetta getur meðal annars lýst sér í þvíað einstaklingurinn forðast augnsamband við annað fólk og myndar ekki þau tengsl við aðra sem eðlileg eru miðað við aldur.
Mál, tjáning og leikur þróast ekki eins og eðlilegt má teljast. Sumir læra aldrei að tala þrátt fyrir fullkomna heyrn. Aðrir eru altalandi en nota málið á sérstæðan hátt, endurtaka ef til vill sömu setningarnar aftur og aftur eða tala um sjálfa sig í þriðju persónu. Margir eiga erfitt með að hefja eða halda uppi samræðum. Hjá börnum er leikur oft einhæfur og skortir þau getu til að leika þykjustuleiki og hlutverkaleiki (t.d. mömmuleik) á sama hátt og börn á svipuðum aldri gera.
Sérkennileg áráttukennd hegðun er áberandi hjá mörgum. Hún getur birst í ýmsum myndum. Allt frá því að vera einfaldur síendurteknar hreyfingar, til dæmis að rugga sér fram og aftur eða veifa höndum, upp í flókin áhugamál sem einskorðast við mjög þröng viðfangsefni, svo sem tímaáætlanir strætisvagna.
Frekari lesning er á www.einhverfa.is