Skip to main content

Þegar fólk ætlar að byrja að æfa hlaup er ýmislegt sem þarf að huga að ef markmiðið er að njóta hlaupanna og hámarka ánægju í tengslum við þau,“ segir Helga Þóra Jónasdóttir, sjúkraþjálfari hjá sjúkraþjálfuninni Afli. Hér eru þrjú lykilatriði sem hún mælir með að séu fólki efst í huga þegar það byrjar að hlaupa.

Skynsemi
Varast ber að ætla að sigra hlaupaheima á stuttum tíma. Líkaminn okkar er ólíkindatól en á sama tíma vanadýr. Ef við göngum of langt á skömmum tíma eru meiri líkur en minni á að líkaminn láti vita af því í formieymsla eða meiðsla. Fyrir þá sem eru algjörir byrjendur er best að byrja æfingar á göngu með léttu joggi inn á milli. Ég mæli meðað fólk leiti sér aðstoðar með byrjendaáætlanir; annað hvort á internetinu eða með því að skrá sig í hlaupahóp en þeir eru ófáir á Íslandi í dag.

Liðleiki
Teygjuæfingar eru ekki til þess gerðar að losna við harðsperrur daginn eftir. Teygjuæfingar, í hvaða formi sem fólk iðkar, eru nauðsynlegar til að viðhalda hreyfanleika liða líkamans og eru liður í því að sporna gegn meiðslum. Ég mæli sterklega með að gleyma þeim ekki í amstri hversdagsins!

Styrkur
Alhliða styrkur er forsenda þess að draga úr líkum á meiðslum. Hugsum um líkamann sem heild og styrkjum allan líkamann; ekki hugsa eingöngu um neðri útlimi þegar kemur að styrktaræfingum og hlaupum. Gott að hafa í huga „Hvort sem við æfum ein eða í hlaupahópi er gulls ígildi að setja sér markmið sem sitja aðeins utan við öryggishring okkar. Það er fátt betra en að ná markmiðum sínum og sigrast á sjálfum sér. Markmiðið þarf að vera í takt við þann stað sem við erum stödd á hverju sinni“ segir Helga Þóra Jónasdóttir, sjúkraþjálfari hjá sjúkraþjálfuninni Afli.

 tekið úr Fréttatímanum 6.maí 2016