Skip to main content

Nálastungur eru betri aðferð til að lina bakverki en hefðbundnar, vestrænar lækningaaðferðir, samkvæmt niðurstöðum þýskrar rannsóknar. Næstum annar hver sjúklingur sem meðhöndlaður var með nálastungum fékk bata sem entist mánuðum saman.

Aftur á móti fann einungis einn af hverjum fjórum sjúklingum sem meðhöndlaður var með hefðbundnum lyfjum og öðrum vestrænum lækningaaðferðum fyrir bata.

Jafnvel gervinálastungur höfðu betri áhrif á sjúklingana sem þátt tóku í rannsókninni en hefðbundin, vestræn lyf, og velta vísindamennirnir því fyrir sér hvort líkaminn bregðist jákvætt við öllum nálastungum, eða einfaldlega lyfleysuáhrifunum.

Einn höfunda rannsóknarinnar segir, að nálastungur lofi mjög góðu sem áhrifarík meðhöndlun krónískra bakverkja. Sjúklingarnir sögðu að bæði hefði dregið úr verkjunum og þeim hömlum sem verkirnir höfðu á daglegt líf þeirra.

Þetta er umfangsmesta rannsókn sem gerð hefur verið á nálastungumeðferð við bakverkjum. Einn höfundanna sagði niðurstöðurnar renna stoðum undir þá kenningu að verkjaboð til heilans megi stöðva með því annarri örvun. Það kunni einnig að útskýra niðurstöðurnar að sjúklingarnir hafi verið jákvæðir gagnvart nálastungum, eða neikvæðir gagnvart hefðbundnum lækningum, og það geti skýrt lyfleysuáhrifin.(www.mbl.is)