Skip to main content

Þeir sem hlaupa berfættir beita líkamanum með öðrum hætti en þeir sem hlaupa í skóm. Rannsóknir gefa til kynna að berfættir hlauparar eigi hugsanlega minni hættu á meiðslum en þeir sem klæðast hlaupaskóm með sérhönnuðum loftpúðum.

Greint er frá niðurstöðum rannsóknarinnar í vísindaritinu Nature. Skóhönnuðir jafnt sem vísindamenn hafa lengi velt því fyrir sér hvernig megi með bestum hætti vernda fætur hlaupara og í þessari tilraun segjast vísindamennirnir hafa rannsakað það út frá þróunarfræði.

Vísindamenn fylgdust með líkamsbeitingu fjölda hlaupara og skráðu muninn á því hvernig þeir stigu til jarðar. Niðurstaðan var sú að þeir sem hlaupa jafnan berfættir lenda á táberginu eða miðjum fætinum frekar en hælnum. Þeir sem hlaupa í skóm lenda hinsvegar á hælnum sem veldur mun harðara höggi. Vísindamaðurinn Daniel Lieberman, sem leiddi rannsóknina við Harvard háskóla, segir höggið raunar svipað því að einhver slái neðan á hælinn á þér með sleggju með um þrefaldri líkamsþyngd þinni.  

Lieberman telur að nútíma íþróttaskóbúnaður kunni að hafa breytt því hvernig fólk hleypur

„Skór virka að því leyti að þeir milda þetta högg, draga úr því að mestu leyti,“ segir Lieberman. Reyndir hlauparar sem hlaupa berfættir hafa hinsvegar þróað með sér aðra aðferð til að koma í veg fyrir sársaukann og lenda með öðrum hætti. „Með því að lenda á táberginu eða miðjum fætinum er hægt að koma næstum því algjörlega í veg fyrir þetta högg sem gerir það að verkum að það er þægilegt að hlaupa berfættur,“ segir Lieberman.

Slíkur hlaupastíll geti að ýmsu leyti valdið minni skaða á líkamanum en hlaup í skóm. Auk þess geti berfættir hlauparar þannig nýtt betur þá orku sem býr í ökklanum.

Á hinn bóginn þurfa berfættir hlauparar að nota kálfavöðvana meira og einnig hásinina. Þeir sem ætla sér að skipta yfir í þennan hlaupastíl með hraði eiga því á hættu að þróa með sér kvilla í kálfunum, nema þeir gæti þess að fara hægt í sakirnar og teygja vel á.

tekið af vef www.mbl.is 28.01.2010