Höfuðverkur / Mígreni

Forsíða » Fræðsla » Íþróttameiðsli » Höfuð & hnakki » Höfuðverkur / Mígreni

Höfuðverkur

Höfuðverkur er sársauki sem einstaklingur finnur fyrir í höfði og/eða hálsi. Höfuðverkur getur átt uppruna sinn frá mismunandi stöðum. Verkirnir geta komið frá  vöðvum eða liðum í hálsi og herðum, kjálkalið, augum, eyrum, og jafnvel tönnum. Eins eru líffærahlutar í höfuðkúpu t.d.  æðar og taugar sem eru mjög næmir og viðkvæmir fyrir hverskonar breytingum eins og þrýstingi, togi eða bólgum og þær breytingar geta valdið verk.
Algengast er að skipta höfuðverkjum í tvo flokka, annarsvegar spennuhöfuðverk og hinsvegar mígreni.

Spennuhöfuðverkur

Spennuhöfuðverkur er algengur kvilli bæði hjá ungu fólki og fullorðnum. Spenna í vöðvum, herðum, hálsi og hnakka geta valdið mismiklum einkennum eða sársauka. Verkirnir eru yfirleitt stöðugir en geta versnað eftir því sem líður á daginn. Verkirnir eru sjaldan það slæmir að þeir trufli svefn. Verkirnir lagast oft við hreyfingu eða slökun. Spennuhöfuðverkur getur komið fram á mismunandi stöðum í höfðinu, sumir finna verki í öllu höfðinu en aðrir á einangruðum stöðum. Ein helsta ástæða þess að einstaklingar fá spennuhöfuðverk er röng líkams- eða  vinnustaða, hálshnykkur eftir bílslys, slitbreytingar í hálshrygg eða stífleiki í hálsi eða herðum.

Mígreni

Mígreni er höfuðverkur sem kemur í köstum og lýsir sér oft sem æðasláttur í öðrum helmingi heilans. Mígreni er skilgreint sem verkjakast sem stendur yfir í 6-24 klst. Verkjaköst byrja oftast í æsku og hefjast sjaldan eftir 35 ára aldur. Í verkjakasti verður útvíkkun á æðum í heilanum sem veldur áreiti á taugaþræði, við áreitið losna boðefni sem valda bólgu og sársauka. Ástandið leiðir til höfuðverkja og annara einkenna eins og ógleði, uppkasta, ljósfælni o.fl. Erfitt hefur reynst að finna orsakavalda mígrenis.  Þreyta, streita, áfengi, tíðablæðingar og hungur eru þættir sem talið er að geti stuðlað að mígrenikasti hjá einstaklingum með mígreni. Með heilbrigðum lífstíl er hægt að fækka köstum ásamt því að forðast þá þætti sem framkalla köst eða gerir einkennin verri.
Ráð til að minnka höfuðverk
• Góður svefn og svefnvenjur
• Heilbrigt mataræði
• Regluleg hreyfing
• Rétt líkamsstaða og vinnustaða
Sjúkraþjálfarar geta hjálpað og leiðbeint einstaklingum sem þjást af höfuðverk.

Efni á aflid.is er aðeins ætlað til fræðslu og upplýsingar. Upplýsingar á aflid.is eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar sjúkraþjálfara, lækna eða annars fagfólks.