Hlauparahné (Runner´s knee)

Forsíða » Fræðsla » Íþróttameiðsli » Hné » Hlauparahné (Runner´s knee)

Orsakir

Hlauparahné er álagseinkenni sem er algengt hjá hlaupurum, hjólreiðamönnum og er auk þess algengt hjá öðrum íþróttamönnum á undirbúningstímabili. Iliotibial bandið (IT-bandið) er sterk bandvefsræma sem liggur frá utanverðum mjaðmakambinum, niður með utanverðu lærinu og festist svo utanvert efst á sköflunginn og tengir þar með mjöðmina við hnéð (mynd). Utanverður epicondyllinn er breiðasti hluti lærbeinsins og er hann niðri við hnéliðinn. Við hreyfingar á hnénu færist bandið yfir beinið á þann hátt að það er fyrir framan beinið í réttu og fyrir aftan það í beygju. Mest álag er á bandinu í 30° beygju.
Við síendurtekna beygju og réttu á hnénu, eins og við að hlaupa eða hjóla, getur hreyfingin á  bandinu yfir beinið valdið bólgu, sérstaklega ef bandið er stutt og strekkt.
Vökvafylltur poki (bursa) er milli IT-bandsins og beinsins og er honum ætlað að minnka núninginn af bandinu á beinið.  Langvarandi álag vegna styttinga á bandinu getur valdið bólgu í bursunni.

Samkvæmt rannsóknum eru þetta helstu orsakir hlauparahnés (Clinical Journal of Sports Medicine):
* ekki nógu vel hitað upp fyrir átök
ákefð eða vegalengdir auknar of hratt
* of háir eða lágir ristarbogar
* mismunandi fótleggjalengd
hjólbeinótt staða fóta
* mikið slitnir hlaupaskór, sérstaklega á utanverðum hæl
* slappir rassvöðvar
* hlaup í hliðarhalla

Einkenni

Yfirleitt er verkur utanvert á hnénu sem getur leitt upp utanvert læri og niður á sköflung og versnar við álag. Verkurinn hverfur í hvíld en hreyfing eins og að ganga upp og niður stiga getur verið sársaukafull. Þreifing á utanverðu hnénu getur jafnframt framkallað mikil eymsli.

Bráðameðferð

Mikilvægt er að þekkja rétt viðbrögð við íþróttameiðslum (RICE meðferðin). Meðferðina á að byrja sem allra fyrst eftir meiðsli. Ef RICE meðferðinni er beitt rétt frá byrjun, þá minnkar bæði blæðingin og bólgan, örvefsmyndun verður minni og það minnkar líkurnar á langvarandi óþægindum. Einnig styttir það endurhæfingartímann og viðkomandi nær fyrr bata.

Skoðun

Ef þú ert með skerandi verk í utanverðu hné á hlaupum sem hverfur fljótlega eftir að þú stoppar og hnéð er snertiaumt að utanverðu, sérstaklega þegar hnéð er í smá beygju, er líklegt að þú sért með hlauparahné.
Skoðun hjá sjúkraþjálfara eða lækni er yfirleitt nóg til að greina meiðslin. Ef það er einhver vafi þá er ómskoðun besta leiðin til að staðfesta greiningu á hlauparahné þar sem hún sýnir bólgu í bursunni og vefjunum í kring.

Meðferð

Sjúkraþjálfun hefur yfirleitt góð áhrif á hlauparahné en markmið hennar er að minnka bólgu og finna hvort um einhverjar skekkjur í stoðgrindinni sé að ræða. Munur á fótleggjalengd, hvort viðkomandi sé hjólbeinóttur og hvernig staðan er á fætinum getur allt haft áhrif á iliotibial bandið. Mikilvægt er að sjúkraþjálfarinn greini orskökina og veiti ráðgjöf um lausnir á vandamálinu áður en æfingar hefjast að nýju.

Dragðu úr æfingaálagi þínu um allt að 50% og ekki gera neitt sem veldur einkennum, s.s. að hlaupa og hjóla.  Kæling og bólgueyðandi lyf geta minnkað bólguna auk þess sem teygja á gluteus maximus og tensor fascia lata (vöðvar sem tengjast iliotibial bandinu) minnkar spennuna á svæðinu.   Mikilvægt er að gera styrkjandi æfingar fyrir rassvöðva og aðra vöðva á mjaðmarsvæði, fáðu ráðleggingar hjá sjúkraþjálfaranum þínum um viðeigandi æfingar fyrir þig.  Gott er að liggja með utanverðan meidda fótinn á frauðplastrúllu og nota hendurnar til að draga þig upp og niður þannig að fóturinn rúlli á frauðplastrúllunni.  Haldið þrýstingnum á aumu punktunum.  Þessi æfing minnkar spennuna í IT-bandinu og flýtir fyrir bata.
Ef ekkert af ofangreindu gagnast er hægt að sprauta bólgueyðandi sterum í bursuna. Það leysir oft vandamálið en í kjölfarið þarf að hvíla í 7 daga.

Hversu langur endurhæfingartíminn er fer eftir alvarleika áverkans og oftast er það þannig að þeim mun lengur sem fólk hefur haft hlauparahné því lengri tíma tekur það að ná sér.

 

Lítill áverki100% eftir 2-4 vikur
Meðal mikill áverki100% eftir 7-8 vikur
Mikill áverki100% eftir 9-24 vikur

Forvörn

Mikilvægt er að gera allt sem hægt er til að koma í veg fyrir að bólga hlaupi í iliotibialbandið.

Nokkur ákveðin atriði er gott að hafa í huga til að fyrirbyggja þessi einkenni:
* hita vel upp fyrir átök
teygja rass og mjaðmarvöðva (aðallega m.gluteus maximus og m.tensor fascia lata)
lagfæra markverðan mun á fótleggjalengd ef hann er til staðar með upphækkun í skóm
* reyna hlaupa sem minnst í hliðarhalla þar sem annar fóturinn er neðar en hinn t.d. á götum þar sem er ræsi í kantinum
* styrkja rass og mjaðmarvöðva
* fá skó með styrkingu að innanverðu eða innlegg ef vandamál er mikið
* ekki auka ákefð eða lengd æfinga of hratt

 

Efni á aflid.is er aðeins ætlað til fræðslu og upplýsingar. Upplýsingar á aflid.is eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar sjúkraþjálfara, lækna eða annars fagfólks.