Collesbrot (Radíusbrot)

Forsíða » Fræðsla » Íþróttameiðsli » Hendur » Collesbrot (Radíusbrot)

Orsakir

Collesbrot verður yfirleitt af völdum höggs eða af því að einstaklingur dettur og ber fyrir sig höndina við fall.  Hjá fullorðnum brotna framhandleggsbeinin oft nálægt úlnliðnum og þá sést greinilega vinkill á framhandleggnum (eins og matargaffall).  Hjá börnum hinsvegar verða brot oftar í framhandleggsbeinum yfirleitt í svokölluðum vaxtalínum í Radíusbeininu.
Nafngiftin Collesbrot er upphaflega komin frá Írskum lækni Dr. Abraham Colles sem árið 1814 var fyrstur til að lýsa þessu algenga broti.

Einkenni

Skyndilegir verkir í framhandleggnum sem aukast þegar viðkomandi reynir að nota höndina eftir að hafa t.d. dottið. Einnig getur sést vinkill í framhandleggnum (matargaffall) sem og bólga yfir svæðinu. Flestir þeir sem fá úlnliðsbrot halda hendinni þétt að líkamanum til að verja hana frekara hnjaski.

Bráðameðferð

Mikilvægt er að þekkja rétt viðbrögð við íþróttameiðslum (RICE meðferðin). Meðferðina á að byrja sem allra fyrst eftir meiðsli. Ef RICE meðferðinni er beitt rétt frá byrjun, þá minnkar bæði blæðingin og bólgan, örvefsmyndun verður minni og það minnkar líkurnar á langvarandi óþægindum. Einnig styttir það endurhæfingartímann og viðkomandi nær fyrr bata.

Skoðun

Ef viðkomandi fær skyndilega verk í hendinna ásamt hreyfiskerðingu eftir að hafa dottið þá skal alltaf leita strax til læknis. Með röntgenmyndartöku er yfirleitt hægt að sjá brotið og setja viðeigandi meðferð í gang.

Meðferð

Ef beinbrotið liggur vel saman þá er viðkomandi settur í gifs í 6 vikur. Fyrstu 72 klst eftir brotið á úlnliðurinn að vera í hástöðu til að minnka bólgu og bjúgmyndun.
Ef hinsvegar brotið liggur ekki vel saman þá þarf viðkomandi að fara í svæfingu á meðan brotendarnir eru settir saman og svo í gifs í 6 vikur. Mikilvægt er að taka röntgenmynd aftur eftir 2 vikur til að tryggja það að brotið líti vel út og hafi ekki færst úr stað.

Endurhæfing

Mikilvægt er að byrja strax að viðhalda liðleika í öxl, olnboga og fingrum með léttum hreyfiæfingum.
Þegar verkir eru horfnir þá er hægt að byrja á þolþjálfun t.d. hjóla og hlaupa.
Ef læknirinn er ánægður með gróandann í beininu þá ætti viðkomandi að losna við gifsið eftir 6 vikur og þá er hægt að byrja á liðkandi og styrkjandi æfingum fyrir úlnliðinn. Fyrst eftir að viðkomandi losnar við gifsið er gott að gera æfingar í volgu vatni.
Lengd endurhæfingartímans fer eftir eðli brotsins og meðferðinni sem þarf að beita. Í sumum tilfellum gæti úlnliðsspelka hjálpað viðkomandi þegar íþróttaiðkun hefst á fullu.

 

Efni á aflid.is er aðeins ætlað til fræðslu og upplýsingar. Upplýsingar á aflid.is eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar sjúkraþjálfara, lækna eða annars fagfólks.