Tognun á þumli (skier´s thumb)
Orsakir
Þegar talað er um slíkan áverka er átt við skemmd á Ulnar collateral liðbandinu (UCL) innanvert á þumlinum. Vert er að taka fram að þessi áverki einskorðast ekki við skíðamenn heldur getur orðið í öllum íþróttum þar sem fingur getur togast til hliðar (frá hendinni) t.d. handknattleik og knattspyrnu. Meiðslin eru kennd við það þegar þumallinn festist í ólinni á skíðastaf sem er fastur í snjónum. Stafurinn virkar þá sem vogarstöng sem þvingar þumalinn frá hendinni og veldur tognun eða sliti á liðbandinu.
Einkenni
Verkur og eymsli við snertingu yfir innri hlið þumalsins. Fyrst í stað getur þumallinn bólgnað og mar getur komið út dagana á eftir. Í þeim tilvikum sem áverkinn uppgötvast ekki nægilega snemma eða hefur ekki verið meðhöndlaður rétt getur liðurinn þykknað samfara krónískri bólgu. Liðurinn milli þumalbeinsins og handarbeinsins ( MCP-liðurinn) er þá laus og óstöðugur. Getan til að halda hlutum milli vísifingurs og þumals skerðist t.d. eins og að halda á lykli eða skriffæri .
Meðhöndlun
Liðbandatognanir lagast yfirleitt á 4-6 vikum. Sjúkraþjálfun getur flýtt þessu ferli, fyrst í stað með bólgueyðandi meðferð og seinna meir liðkandi og styrkjandi meðferð fyrir þumalfingurinn ef hreyfiskerðing og/eða kraftminnkun er til staðar.
Þegar liðbandið slitnar getur skurðaðgerð komið til greina. Í sumum tilvikum festist slitna liðbandið í mjúkvefjunum neðst á þumlinum og kallast það Stener-skemmd (lesion). Slík tilvik kalla yfirleitt á skurðaðgerð því að öðrum kosti nær liðbandið ekki að gróa af sjálfsdáðum.
Við tognunum á ulnar collateral liðbandinu (ucl) flísast stundum brot út úr fingurbeininu. Ef beinflísin hefur ekki færst mikið úr stað grær hún yfirleitt að sjálfu sér en að öðrum kosti þarf getur þurft skurð aðgerð til að laga það.
Rof á UCL án Stener-lesion grær oftast án aðgerðar og er því yfirleitt notast við plast spelku til að halda þumlinum stöðugum í 6 vikur eða þar til liðbandið hefur náð að gróa. Ef allt er í lagi og eðlileg hreyfigeta er til staðar er hægt að hefja æfingar af fullum krafti 10-12 vikur eftir áverka. Ef óstöðugleiki og kraftleysi er enn til staðar er skurðaðgerð æskileg.
Aðferðirnar við að laga liðbandið eru margar en eru allar þannig að skurðlæknirinn festir skemmda liðbandið á sinn stað með vír eða saum. Eftir aðgerð er þumallinn skorðaður með spelku í 6 vikur en að þeim tíma liðnum er mikilvægt að leita til sjúkraþjálfara. Hans hlutverk er að auka hreyfigetu þumalsins aftur og kenna æfingar til að auka styrk í þumalfingrinum.
Efni á aflid.is er aðeins ætlað til fræðslu og upplýsingar. Upplýsingar á aflid.is eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar sjúkraþjálfara, lækna eða annars fagfólks.