Brot á bátsbeini (Scaphoid)

Forsíða » Fræðsla » Íþróttameiðsli » Hendur » Brot á bátsbeini (Scaphoid)

Orsakir

Brot á bátsbeini verður yfirleitt af völdum höggs eða af því að einstaklingur dettur og ber fyrir sig höndina við fall. Þar sem tiltölulega lítið blóðflæði er til bátsbeinsins verður gróandinn oft mjög hægur og upp geta komið ýmis vandamál í framhaldinu.

Einkenni

Skyndilegir verkir í úlnliðnum (þumalfingurs megin) eftir að hafa t.d. fengið högg á höndina eða viðkomandi hefur dottið. Verkirnir aukast þegar úlnliðurinn er hreyfður, sérstaklega í áttina að þumalfingrinum. Við þreifingu eru mikil eymsli á smá svæði við enda þumalfingurs á hlið úlnliðarins.
Einkennin er samt oft það lítil að íþróttamaðurinn leitar sér ekki strax læknishjálpar. Algengt er að íþróttafólk túlki þessa verki sem úlnliðstognun og leitar sér ekki strax hjálpar, það getur hinsvegar tafið mikið fyrir gróandanum og haft aukaverkanir í för með sér.
Fyrstu 2 sólarhringana getur verið erfitt að sjá brotið í röntgenmyndartöku og því ætti að taka aðra mynd 2 vikur síðar ef viðkomandi hefur enn verki.

Bráðameðferð

Mikilvægt er að þekkja rétt viðbrögð við íþróttameiðslum (RICE meðferðin). Meðferðina á að byrja sem allra fyrst eftir meiðsli. Ef RICE meðferðinni er beitt rétt frá byrjun, þá minnkar bæði blæðingin og bólgan, örvefsmyndun verður minni og það minnkar líkurnar á langvarandi óþægindum. Einnig styttir það endurhæfingartímann og viðkomandi nær fyrr bata.

Skoðun

Ef viðkomandi fær skyndilega verkir í úlnliðinn eftir að hafa fengið högg eða dottið á höndina þá skal alltaf leita til læknis. Með röntgenmyndartöku er yfirleitt hægt að sjá brotið og setja viðeigandi meðferð í gang. Eins og fyrr sagði getur verið erfitt að greina brotið strax og því getur verið nauðsynlegt að taka röntgen aftur 14 dögum síðar til að geta með góðri samvisku útilokað.

Meðferð

Ef beinbrotið liggur vel saman þá er viðkomandi settur í gifs í 6 vikur til að beinið grói saman. Í flestum tilvikum grær þetta vel saman. Hjá sumum getur gróandinn tekið langan tíma sem hefur í för með sér langa fjarveru frá íþróttum. Í sumum tilfellum getur komið drep í bátsbeinið og það brotnar smásaman niður og veldur auknum líkum á slitgigt í úlnliðnum. Stöku sinnum getur myndast gerviliðamót (pseudoatrose) þar sem beinið nær ekki að gróa saman. Áhættan fyrir þessum vandamálum eykst ef viðkomandi leitar sér ekki hjálpar fljótt eftir brotið.

Endurhæfing

Mikilvægt er að byrja strax að viðhalda liðleika í öxl, olnboga og fingrum með léttum hreyfiæfingum.
Þegar verkir eru horfnir er hægt að byrja á þolþjálfun t.d. hjóla og hlaupa.
Ef læknirinn er ánægður með gróandann í beininu þá ætti viðkomandi að losna við gifsið eftir 6 vikur og þá er hægt að byrja á liðkandi og styrkjandi æfingum fyrir úlnliðinn. Fyrst eftir að viðkomandi losnar við gifsið er gott að gera æfingar í volgu vatni.
Lengd endurhæfingartímans fer eftir eðli brotsins og meðferðinni sem þarf að beita. Í sumum tilfellum gæti úlnliðsspelka hjálpað viðkomandi þegar íþróttaiðkun hefst á fullu.

 

 

Efni á aflid.is er aðeins ætlað til fræðslu og upplýsingar. Upplýsingar á aflid.is eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar sjúkraþjálfara, lækna eða annars fagfólks.