Viðbeinsbrot (Clavicle fracture)

Forsíða » Fræðsla » Íþróttameiðsli » Axlarmeiðsli » Viðbeinsbrot (Clavicle fracture)

Orsakir

Viðbeinið (clavicle) myndar liðamót með brjóstbeininu annars vegar og axlarhyrnu (acromion) á herðablaðinu hins vegar. Á viðbeinið festast bæði vöðvar tengdir axlargrindinni og brjóstvöðvar.
Hlutverk viðbeinsins er að tengja axlargrindina við líkamann og taka þátt í hreyfingum í axlarliðnum ásamt herðablaðinu og höfðinu á upphandleggnum.

Algengasta orsökin fyrir viðbeinsbroti er fall á öxlina eða á útréttan handlegg. Við brot á viðbeininu rifna oft liðböndin  sem halda því við axlarhyrnuna og brjóstbeinið á sama tíma. Viðbeinsbrot er eitt af algengustu beinbrotum í líkamanum. Það er mjög algengt í tengslum við íþróttir. Algengast er að brotið verði á miðþriðjungi beinsins.

Einkenni

Verkur á viðbeininu sjálfu
Bólga yfir svæðinu
Stundum sést beinið undir húðinni, eins og hálfgerður hnúður

Bráðameðferð

Mikilvægt er að þekkja rétt viðbrögð við íþróttameiðslum – RICE meðferðin. Meðferðina á að byrja sem allra fyrst eftir meiðsli. Ef RICE meðferðinni er beitt rétt frá byrjun, þá minnkar bæði blæðingin og bólgan, örvefsmyndun verður minni og það minnkar líkurnar á langvarandi óþægindum. Einnig styttir það endurhæfingartímann og viðkomandi nær fyrr bata.
Ef grunur leikur á viðbeinsbrot skal leita strax til læknis. Verkjastillandi- og bólgueyðandi meðferð er aðalmeðferðin á þessu stigi.

Skoðun

Skoðun fer fram hjá lækni. Hægt er að meta hvort um brot sé að ræða út frá einkennum og með því að þreifa viðbeinið. Til þess að staðfesta hvort um viðbeinsbrot sé að ræða er tekin röntgenmynd. Miklir verkir fylgja viðbeinsbroti fyrst um sinn.

Meðferð og endurhæfing

Meðferðin er ákveðin út frá því hvaða týpa af viðbeinsbroti um er að ræða. Brotið sjálft grær venjulega á 4-6 vikum.
Fyrst er handleggurinn alveg hvíldur í eina til tvær vikur. Stundum er notaður fatli til að styðja við handlegginn svo brotið sé stöðugra. Það er samt mikilvægt að vera ekki alveg frosinn með allan handlegginn heldur reyna að hreyfa um olnboga og úlnlið auk þess að nota hinn handlegginn til að aðstoða við lyfta varlega undir handlegginn upp og niður. Ekki lyfta upp fyrir 90°. Ef brotið er alvarlegt eða ef liðböndin sem tengja viðbeinið við brjóstbeinið eða herðablaðið slitna einnig, þá þarf að grípa til aðgerðar til að setja brotið í réttar skorður. Þá er stundum notuð plata til að halda brotinu stöðugu. Það er oft gert, þegar um íþróttamann er að ræða til að batinn verði hraðari, en því geta fylgt ýmsir fylgikvillar.
Þegar verkirnir eru farnar (eftir svona 2-3 vikur) þá getur þolþjálfun eins og hlaup hafist að nýju ásamt liðkandi- og auðveldum styrktar æfingum í samráði við sjúkraþjálfarann. Mikilvægt er að byrja að vinna í að ná fullum hreyfiferli.
Eftir 4-6 vikur getur svo hafist styrktarþjálfun á vöðvunum í kringum axlargrindina. Ekki er ráðlagt að hefja þátttaku í kontakt íþróttum fyrr en í fyrsta lagi eftir 2-3 mánuði.

Hafa ber í huga…
Í flestum tilfellum grær brotið án vandræða. En þó eru alltaf einhverjir sem hafa langvarandi einkenni eftir viðbeinsbrot, þrátt fyrir að brotið hafi alveg gróið saman. Stundum myndast „falskur liður“ í brotinu þegar það grær. Þá þarf viðkomandi að fara í aðgerð til að laga það.

Hér eru myndbönd um viðbeinsbrot til frekari útskýringa:
http://www.youtube.com/watch?v=HwKqocoRWBY&feature=related
http://www.youtube.com/watch?v=e6yIOpWRvjI

 

Efni á aflid.is er aðeins ætlað til fræðslu og upplýsingar. Upplýsingar á aflid.is eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar sjúkraþjálfara, lækna eða annars fagfólks.