Skip to main content

Fyrsta vikan í febrúar ár hvert er helguð tannvernd og í ár er áhersla lögð á glerungseyðingu og hvernig stemma megi stigu við henni.Af því tilefni hefur Lýðheilsustöð gefið út veggspjaldið Þitt er valið þar sem lýst er á myndrænan hátt innihaldi algengustu vatns-, ávaxta- og gosdrykkja á markaðnum og áhrifum innihaldsins á tannheilsu.Einnig hefur verið gefið út fræðslumyndband um umhirðu tanna barna, jafnt ungra sem þeirra eldri, og það talsett á ensku, rússnesku og pólsku, auk íslensku. Nýtt fræðsluefni er svo gjarnan gert fyrir leikskólabörn og yngstu börnin í grunnskóla í tannverndarvikunni og hefur það verið sent til allra leikskóla á landinu. 

Eitt af hlutverkum Lýðheilsustöðvar er að fræða og veita fólki upplýsingar um það sem hefur áhrif á heilsu. Í tannverndarvikunni í ár var ákveðið að beina sjónunum fólks að innihaldi drykkjarvara og áhrifum þess á glerungseyðingu – ekki síst hjá börnum og ungmennum en unglingar drekka t.d. mjög mikið af gosdrykkjum. Samkvæmt könnun RÍN (2003-2004) drekka 9 ára börn að meðaltali tæplega 2,5 lítrar á viku af gosdrykkjum og sætum svaladrykkjum og 15 ára unglingar tæplega 4 lítrar á viku.Upplýsingarnar á veggspjaldinu eru settar fram á myndrænan hátt þannig að sem flestir skilji þær, jafnvel þeir sem ekki kunna íslensku til fullnustu, sem og til að hjálpa fólki að muna hvað er í hverjum drykk þegar kemur að því að velja sér drykkjarvöru. Veggspjaldið, sem er í A2 stærð, er hægt að panta eða prenta út í A4 stærð.Hægt að ná í veggspjaldið hér á pdf formi.

tekið af www. lydheislustod.is