Skip to main content

Börn jafnvel yngri en tíu ára þurfa sjúkraþjálfun vegna verkja í baki, herðum og hálsi. Fleiri börn leita til sjúkraþjálfara nú en áður og mikil snjallsímanotkun er talin helsta ástæðan.Sextíu prósentum fleiri börn leita til sjúkraþjálfara í Danmörku vegna verkja en fyrir tíu árum. Snjallsímum og spjaldtölvum er kennt um þessa miklu fjölgun. Veigur Sveinsson, varaformaður Félags sjúkraþjálfara segir að sama þróun hafi orðið hér á landi. „Við getum verið að sjá þetta niður í mjög unga krakka og auðvitað tengist það yfirleitt alltaf þá óhóflegri notkun á þessum tækjum,“ segir Veigur. Þetta eru börn jafnvel yngri en tíu ára. „Oftast nær eru þetta bæði höfuðverkir og einkenni frá hálsi og herðum,“ segir Veigur.

Uppruni verkjanna liggur oft í því að börn og fullorðnir halla höfðinu fram til að horfa á símana. „Þetta er að setja mikið álag á hálsliðina og er ekki heppileg staða að vera í til lengdar,“ segir Veigur. Hann leggur til að börn og fullorðnir haldi símunum hærra á loft og noti annan handlegginn til að styðja undir þann sem á símanum heldur. Þannig sé höfuðið í réttri stöðu og fólki horfi beint fram fyrir sig og á snjalltækin. 

Nokkurra mínútna göngutúr er gagnlegur þegar fólki fer að verkja. „Þó það sé ekki nema bara að standa upp og ná sér í vatn í flöskuna, aðeins að teygja úr sér og aðeins að fá smá liðkandi æfingar, svona hringhreyfingar í öxlum í báðar áttir og aðeins að draga saman herðablöðin,“ segir Veigur. 

Viðtalið í heild má sjá á http://ruv.is/frett/born-thurfa-sjukrathjalfun-vegna-snjallsimanna