Skip to main content

Alzheimerssjúkdómur er  taugahrörnunarsjúkdómur og algengasta orsök heilabilunar. Alois Alzheimer var þýskur læknir sem árið 1906 lýsti einkennum sjúkdómsins fyrstur manna og sýndi hann jafnframt fram á mjög einkennandi breytingar í heila sjúklingsins. Sjúkdómurinn er algengastur hjá eldra fólki, en yngri einstaklingar geta líka veikst.

Einkenni Alzheimerssjúkdómsins  koma hægt og lúmskt og geta verið afar óljós og margslungin. Þegar sjúkdómsgreiningin liggur endanlega fyrir, er algengt að aðstandendur tali um að það séu mörg ár síðan eitthvað fór að breytast, það var bara svo erfitt að átta sig á hvað var að gerast. Gleymska er yfirleitt fyrsta einkennið sem tekið er eftir, einkennin verða smám saman meira og meira áberandi og fara að hafa meiri áhrif á líf einstaklingsins og gera honum erfiðara að takast á við tilveruna. Þessu ferli getur fylgt mikill kvíði og öryggisleysi.

Engin lækning er við Alzheimerssjúkdómnum, en til eru lyf sem geta hægt á ferlinu og aukið vellíðan einstaklingsins. Þrátt fyrir þetta er mikilvægt að fá greiningu á sjúkdómnum eins snemma í ferlinu og kostur er, bæði til þess að fá viðeigandi meðferð en líka til þess að geta verið virkur þátttakandi í því að skipuleggja framtíðina. Að mörgu þarf að hyggja og margir þurfa að koma að málum ef vel á að takast til. Aðstandendur eru hvattir til að leita sér aðstoðar, fá ráðgjöf og stuðning.

sjá nánar á www.alzheimer.is