Tognun innra hliðarliðband (MCL)

Forsíða » Fræðsla » Íþróttameiðsli » Hné » Tognun á innra liðbandi í hné (MCL)

Orsakir

Algengast er að liðbandið togni þegar leikmaður fær högg á utanvert hnéð þegar hann stendur í fótinn eða þá að hann reynir að snúa fætinum þegar hann er fastur í undirlaginu eins og með takka í grasi eða á stömum dúk í íþróttasal. Innra liðbandið í hnénu tengir sköflunginn og lærbeinið að innanverðu.

Tognun á liðböndum er skipt í 3 stig eftir alvarleika meiðslana :

1. gráðu tognun er þegar einungis nokkrir þræðir bandsins togna eða slitna. Eftirgefanleiki bandsins eykst lítilsháttar

2. gráðu tognun er þegar fleiri þræðir bandsins skemmast og eftirgefanleikinn er umtalsverður

3. gráðu tognun er þegar liðbandið slitnar alveg. Eftirgefanleikinn er alger þannig að liðurinn gapir við liðbandapróf. Vegna þess hvernig áverkinn á sér stað er einnig hætt við að aðrir hlutar hnésins þ.e. miðlægur liðþófi og krossband skemmist líka.

Einkenni

Við fyrstu gráðu tognun er liðbandið aumt viðkomu. Liðbandapróf framkvæmt af sjúkraþjálfara  eða lækni er einnig sársaukafullt.

Meiri sársauki framkallast við annarar gráðu tognun við snertingu og aðra prófun auk þess sem liðurinn bólgnar yfirleitt upp fljótlega eftir áverkann.

Tognun af þriðju gráðu er mjög sársaukafull og verður hnéð það óstöðugt að viðkomandi getur ekki haldið áfram. Liðurinn fyllist af vökva og blóði, en þar sem liðpokinn getur hafa rifnað getur vökvinn lekið út í aðliggjandi vefi þannig að ekki verði vart við bólgu í hnénu.

Meðferð

Mikilvægt er að þekkja rétt viðbrögð við íþróttameiðslum (RICE meðferðin). Meðferðina á að byrja sem allra fyrst eftir meiðsli. Ef RICE meðferðinni er beitt rétt frá byrjun, þá minnkar bæði blæðingin og bólgan, örvefsmyndun verður minni og það minnkar líkurnar á langvarandi óþægindum. Einnig styttir það endurhæfingartímann og viðkomandi nær fyrr bata.
Einnig er mælt með því að taka bólgueyðandi lyf frá lækni svo að bólgan hverfi fyrr.

Mikilvægt er að hinn slasaði fái viðeigandi meðferð hjá sjúkraþjálfara þar til hann getur hafið íþróttaiðkun á ný.
Tognun af gráðu 1 tekur um 3 vikur að jafna sig að fullu en annarrar gráðu tognun 6-8 vikur. Þriðju gráðu tognun tekur um 12 vikur.

Áður fyrr voru framkvæmdar aðgerðir á hnénu eftir svona slys, en því hefur nú að mestu verið hætt  þar sem sýnt hefur verið fram á að almenn endurhæfing er betri meðferðarkostur.

Efni á aflid.is er aðeins ætlað til fræðslu og upplýsingar. Upplýsingar á aflid.is eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar sjúkraþjálfara, lækna eða annars fagfólks.