Rifinn liðþófi (Meniscus lesion)

Forsíða » Fræðsla » Íþróttameiðsli » Hné » Rifinn liðþófi (Meniscus lesion)

Orsakir

Algengast er að rífa liðþófa þegar viðkomandi er með  fullan þunga  á hnénu, það létt bogið og samtímis verður snúningur í hnéliðnum. Við þessar aðstæður klemmist liðþófinn á milli lærbeins og leggbeins og getur rifnað. Innri liðþófi verður mun oftar fyrir meiðslum en sá ytri. Liðþófameiðsli hjá börnum eru sjaldgæf.

Einkenni

Verkir þegar þrýst er á liðbilið og við snúning í hnénu. Verkirnir koma oft skyndilega við ákveðnar hreyfingar og getur hnéð bólgnað upp. Ef um smámeiðsli er að ræða, getur það jafnað sig með tímanum.  Hinsvegar ef um stærri rifur er að ræða, þá getur flipi af liðþófanum klemmst í hnénu og það valdið því að hnéð læsist eða viðkomandi missir kraft í hnénu í augnablik. Ef einkenni hafa verið lengi án meðferðar er hætta á vöðvarýrnun í lærum.

Bráðameðferð

Mikilvægt er að þekkja rétt viðbrögð við íþróttameiðslum (RICE meðferðin). Meðferðina á að byrja sem allra fyrst eftir meiðsli. Ef RICE meðferðinni er beitt rétt þá minnkar blæðingin, örvefsmyndun verður minni og það minnkar líkurnar á langvarandi óþægindum. Einnig styttir það endurhæfingartímann og viðkomandi nær sér fyrr.

Skoðun

Ef grunur er um meiðsli inní hnéliðnum skal alltaf leita til læknis eða sjúkraþjálfara. Hægt er að framkvæma ýmsar skoðanir á hnénu til að greina rifinn liðþófa, en mjög algengt er að það séu eymsli í liðbilinu sem versna við snúning í hnénu. Til að staðfesta greininguna er oft nauðsynlegt að senda viðkomandi í segulómun eða ómskoðun.

Meðferð

Meðferð við minni háttar meiðslum í liðþófa samanstendur af minnkuðu álagi og endurhæfingu hjá sjúkraþjálfara. Ef einkennin minnka ekki með tímanum, ef hnéð læsist eða það er vitað með vissu að um stóra rifu er að ræða í  þá ætti að íhuga aðgerð á hnénu (hnéspeglun).
Í flestum tilfellum er þá sá hluti liðþófans sem rifinn er fjarlægður,  en sjaldgæft er að fjarlægja allan liðþófann. Við það að fjarlægja hluta af liðþófanum þá eykst hættan á slitgigt í hnénu og því stærri hluti sem fjarlægður er því meira eykst áhættan. Hægt er að sauma liðþófann saman til að minnka áhættuna á slitgigt en ókosturinn við þá meðferð er margra mánaða endurhæfing. Flestir íþróttamenn velja því að fara í speglun og  láta fjarlægja skemmdina til að geta hafið íþróttaiðkun fyrr aftur á fullu.
Eftir liðþófaaðgerð er mikilvægt að fara til sjúkraþjálfara  sem hjálpar þér að ná niður bólgunni í hnénu og stjórnar  endurhæfingunni .
Endurhæfing eftir liðþófaspeglun á innri liðþófa tekur 3-4 vikur  en ef um aðgerð á ytri liðþófa er að ræða getur endurhæfingin tekið 4-6 vikur.

Forvörn

Það er ekki mikið sem hægt er að gera til að fyrirbyggja meiðsli á liðþófum. Meiðslin verða sem fyrr segir þegar hnéð er í þungaberandi stöðu, létt bogið og snúningur verður í hnéliðnum. Eina sem getur hjálpað er að hafa sterka vöðva framan- og aftanlæris og einnig að hafa rétt styrktarhlutfall á milli sömu vöðvahópa.

 

Efni á aflid.is er aðeins ætlað til fræðslu og upplýsingar. Upplýsingar á aflid.is eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar sjúkraþjálfara, lækna eða annars fagfólks.