Sinaskeiðabólga

(Carpal Tunnel)

Forsíða » Fræðsla » Íþróttameiðsli » Hendur » Sinaskeiðabólga (Carpal Tunnel Syndrome)

Orsakir

Carpal tunnel syndrome (sinaskeiðabólga) er ofálagseinkenni sem tengist endurteknum, einhæfum hreyfingum, sem veldur því að sinaslíðrin bólgna upp. Í sumum tilfellum getur langvarandi bólga í sinaslíðri valdið veikleika í sin og í versta falli valdið sliti.

Einkenni

Verkir liggja yfir úlnlið sem virkar þrútinn og stundum marrar í honum við hreyfingar.
Bólgur í sinaslíðrum geta valdið þrýstingi á medianus taugina sem veldur breytingum á tilfinningu í úlnlið og fingrum. Algengt er að fólk finni brunatilfinningu eða náladofa samfara verk. Rýrnun getur átt sér stað í vöðvum þumalfingursins í slæmum tilfellum.

Bráðameðferð

Mikilvægt er að þekkja rétt viðbrögð við íþróttameiðslum – RICE meðferðin.

Skoðun

Við væg einkenni er ekki nauðynlegt að leita sér læknishjálpar. Ef bati er hinsvegar hægur, þrátt fyrir minnkað álag skal leita til fagaðila. Skoðun hjá lækni eða sjúkraþjálfara nægir til að greina þessi meiðsli. Ef einhver vafi er um greininguna er hægt að senda viðkomandi í ómskoðun til að fá staðfestingu.

Meðferð

Mikilvægast er að minnka það áreiti sem framkallar og viðheldur bólgunni. Það felur í sér hvíld frá athöfnum sem reyna á beygjusinar fingra eins og að halda á spaða, halda á hamri eða vinnu sem krefst átaka. Jafnframt er gott að nota úlnliðsspelku sem minnkar álagið á liðinn. Sjúkraþjálfun og bólgueyðandi lyf geta hjálpað til við að minnka bólguna.

Í þrálátum tilfellum getur þurft að sprauta  bólgueyðandi sterum til að minnka bólguna í sinaslíðrunum. Oft þarf nokkrar slíkar sprautur svo einkennin fari alveg.

Þegar sterasprautur gagnast ekki getur þurft að grípa til aðgerðar (speglunar).
Aðalkostur speglunarinnar er sá að hún er gerð í staðdeyfingu og því hægt að framkvæma hana með lítilli fyrirhöfn. Gerðir eru tveir litlir skurðir, annar í úlnliðnum og hinn í lófanum. Lítil myndavél er sett inn í úlnliðinn þannig að læknirinn sér göngin. Eftir aðgerð er úlnliðsspelka notuð í 4-6 vikur.

 

Efni á aflid.is er aðeins ætlað til fræðslu og upplýsingar. Upplýsingar á aflid.is eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar sjúkraþjálfara, lækna eða annars fagfólks.