Frosin öxl

Forsíða » Fræðsla » Íþróttameiðsli » Axlarmeiðsli » Frosin öxl (Periarthrosis humeroscapularis)

Orsakir

Frosin öxl er algengt fyrirbæri hjá fólki á aldrinum 40-60 ára, algengara hjá konum en körlum. Þá eru hreyfingar axlarliðarins skertar í allar áttir.

Það er ekki nein ein ákveðin skýring á því hvað orsakar frosna öxl, nokkrir möguleikar eru í stöðunni eins og td.  ef öxlin verður fyrir áverka, ef um beinbrot er að ræða eða eftir aðgerð. Frosin öxl getur einnig komið ef um hálstaugaáverka er að ræða og svo getur hún  komið til án nokurrar ástæðu.
Frosin öxl getur tengst sjúkdómum á borð við sykursýki, skjaldkirtils vandamálum eða ef viðkomandi hefur nýverið fengið hjartaáfall.
Frosin öxl veldur því að liðpokinn umhverfis axlarliðinn stífnar og í honum myndast örvefur.

Einkenni

Fyrsta stigið er stundum kallað „frysti stigið“. Á þessu stigi byrjar verkur að koma rólega sem veldur minnkun á hreyfigetu í öxlinni. Sumir átta sig ekki á því að eitthvað sé að fyrr en þeir eiga í erfiðleikum með að t.d. klæða sig í og úr. Oft orsakast verkurinn af slímsekknum sem liggur undir axlarhyrnunni (bursitis subacromialis). Eftir nokkra mánuði verður verkurinn svo mikill að hann fer að valda svefntruflunum.

Annað stigið er oft kallað „frosna stigið“ vegna þess að á þessu stigi er hreyfigeta axlarinnar orðin enn verri. Þetta stig getur staðið yfir í allt að eitt ár.

Síðasta stigið kallast „affrysti stigið“. Á þessu stigi eykst hreyfigeta axlarinnar aftur. Þetta stig getur varað frá 5 mánuðum upp í 2 ár.

Helsta einkenni frosinnar axlar sem hægt er að sjá með rannsóknum er minnkaður liðvökvi í liðnum.
Þar sem það eru mjúkvefirnir í axlarliðnum, sérstaklega liðpokinn, sem hafa áhrif á frosna öxl, þá er ekki hægt að sjá mikið út úr röntgen mynd. Þó er hægt að mismunagreina á röntgen mynd hvort um gigt eða kalkmyndun í sin sé að ræða en ekki frosna öxl.
Frosin öxl getur haft mikil áhrif á daglegt líf sérstaklega þegar einkenni eru slæm.

Bráðameðferð

Ekki er til nein sérstök bráðameðferð við frosinni öxl.
Verkjastillandi meðferð væri helst það sem hægt er að gera á þessu stigi og viðhalda hreyfingu í öxlinni eins og mögulegt er.

Skoðun

Skoðun fer fram hjá lækni. Góð skoðun hjá lækni á að geta sagt til um hvort um frosna öxl sé að ræða.
Það er takmörkun á hreyfigetu í allar áttir, sérsaklega í útsnúning í öxl þegar olnboga er haldið upp við líkamann í 90° og snúið út. Halda skal herðablaðinu stöðugu á meðan.

Meðferð og endurhæfing

Á fyrsta stiginu er aðalmeðferðin verkjastillandi meðferð.
Kæli- eða hitapokar
Verkjastillandi lyf uppáskrifuð hja lækni.

Sjúkraþjálfun er mikilvæg þegar um frosna öxl er að ræða. Aðalmarkmiðið er að liðka liðpokann og mjúkvefina umhverfis axlarliðinn og reyna að viðhalda og auka hreyfigetu axlarinnar. Auk þess er mikilvægt að veita verkjastillandi meðferð.
Það er mikilvægt að viðhalda hreyfigetu og styrk í framhandlegg og höndum á meðan verið er að vinna með frosna öxl. Það er hægt að gera með æfingateygjum og léttum lóðum.
Sterasprautur er stundum notaðar þegar einkenni eru slæm og hafa varað lengi. Sprautan er þá ekki hugsuð sem lækning heldur til þess að minnka einkenni tímabundið.
Aðgerð er síðasti kostur og yfirleitt ekki gerð nema öll önnur úrræði hafi verið fullreynd.

Hér eru video um frosna öxl:
http://www.youtube.com/watch?v=mgXknwC2X7g
http://www.youtube.com/watch?v=Wn4Ygr2t7Tw&feature=related
http://www.youtube.com/watch?v=PDmwz-6YbLk&feature=related

 

Efni á aflid.is er aðeins ætlað til fræðslu og upplýsingar. Upplýsingar á aflid.is eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar sjúkraþjálfara, lækna eða annars fagfólks.