Osgood-Schlatter

Forsíða » Fræðsla » Íþróttameiðsli » Hné » Osgood-Schlatter

Orsakir

Osgood Schlatter er meiðsl sem lýsa sér sem verkur og kúlumyndun á sköflungshrjónu (bólga í vöðvafestu tuberositas tibiae) efst á sköflungnum rétt fyrir neðan hné.
Orsökin er langoftast of mikið álag. Osgood schlatter er algengast hjá börnum og ungu fólki sem er að vaxa og stundar íþróttir. Algengara hjá drengjum en stúlkum.

Þegar börn eru að vaxa og beinin ekki fullþroskuð þá eru svæði, þar sem vaxtarlínur eru, viðkvæm fyrir áreiti. Þess vegna myndast bólga á sköflungshrjónu festunni (tuberositas tibiae) þegar stóru framanlærisvöðvarnir dragast saman og toga í festuna. Ef íþróttaiðkun er haldið áfram án þess að gefa beininu hvíld til að aðlagast þá koma fram einkennin verkur og bólga í sköflungshrjónunni.

Mjög algengt er að hjá ungu fólki sem fær Osgood Schlatter, að lærvöðvarnir séu stífir og stuttir. Það orsakast oft af miklu álagi og ekki nægum teygjum.

Ef ekkert er að gert getur togið frá vöðvunum á endanum rifið festuna frá beininu. Svona beinbrot kallast afrifu brot (avulsion fracture)

Í sumum tilfellum af Osgood Schlatter getur bólgan í festunni myndast án þess að um álag sé að ræða. Þá er oftast um að ræða högg á beinið, t.d. spark eða högg við lendingu eftir fall.
Osgood Schlatter einkenni geta verið viðvarandi í langan tíma, alveg upp í nokkur ár.

Einkenni

Verkir við og eftir æfingar eða aðra hreyfingu ofan- og framanvert á leggnum rétt undir hnénu
Ef ástandið hefur verið viðverandi í langan tíma þá stækkar sköflungshrjónan og verður áberandi hnúður.
Verkur þegar þreifað er á sköflungshrjónu festunni

Bráðameðferð

Bráðameðferð við Osgood Schlatter er ekki til. En stundum er hægt að halda einkennum niðri með því að setja kælingu á sköflungshrjónu festuna. Einnig er hægt að nota kinesio tape til að halda niðri einkennum.

Skoðun

Skoðun fer venjulega fram hjá lækni eða sjúkraþjálfara. Yfirleitt er að hægt að greina hvort um Osgood Schlatter sé að ræða með klínískri skoðun.
Hægt er að fá mynd í segulómun eða notast við ómtækni til þess að staðfesta hvort bólga sé í festunni og þá staðfesta hvort um Osgood Schlatter sé að ræða.

Meðferð

Ekki er mælt með að nota bólgueyðandi töflur eða kortisól sprautur á börn og unglinga. Ekki er heldur mælt með að setja krakkana í gips því það veldur bara öðrum vandamálum.

Algjör hvíld er eina meðferðin sem er viðurkennd og mælt með um allan heim. Hvíldin þarf að standa yfir þar til sköflungshrjónan er ekki aum viðkomu lengur.
Að hvíld lokinni er mikilvægt að byrja á að fara í sérhæfðar æfingar undir leiðsögn sjúkraþjálfara.

Gott er að nota kælingu til þess að halda niðri verkjum á svæðinu.

Stundum er notað teip undir hnéskelina eða sérstakt band eða spelka þegar íþróttaiðkun er hafin að nýju. Þetta er gert til þess að létta álagið á hnéskeljarsininni.
Kinesio teip getur einnig hjálpað til að minnka álagið á hnéskeljarsinina og létt á sköflungshrjónu festunni.

Fara þarf varlega af stað því einkennin geta tekið sig upp aftur ef farið er of hratt af stað og getur þá vandamálið orðið langvarandi og erfitt viðureignar!

Mikilvægt fyrir ungt fólkt sem er að vaxa að teygja vel. Þegar börn eru að vaxa þá vaxa beinin fyrst og svo aðlagast vöðvarnir lengdinni. Á þessu tímabili er oft ójafnvægi í vöðvunum sem getur valdið því að þeir eru stífir. Þessi stífni í vöðvunum er talin hafa áhrif á togið í hnéskeljarsininni. Margir sjúkraþjálfarar telja að þetta geti svo valdið einkennum eins og t.d. Osgood Schlatter.

Mikilvægt er að huga að æfingaálaginu hjá krökkum sem eru að vaxa:

  • Álagið skal miðast út frá tíðninni, lengdinni og ákefðinni. Alltaf skal vera 1-2 dagar á milli æfinga.
  • Passa álagið á æfingum.
  • Passa leikjaálagið!!! Oft eru ungt hæfileikaríkt fólk látið spila fleiri leiki eða æfa meira en aðrir. Þetta þarf að varast því það er auðvelt að keyra svona krakka út ef ekki er farið varlega. Fullorðna fólkið þarf að hafa vit fyrir þeim ungu, því þau eru ung og metnaðarfull og kunna sér ekki hóf!

Forðast of mikil hopp og lyftingar Lyftingar á að forðast hjá ungu fólki þar til beinin eru orðin fullþroskuð. Einnig skal forðast of mikil hopp. Óþroskuð bein þola ekki of mikið álag. Beinin hafa yfirleitt náð fullum þroska í kringum 16 til 17 ára aldur.

Efni á aflid.is er aðeins ætlað til fræðslu og upplýsingar. Upplýsingar á aflid.is eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar sjúkraþjálfara, lækna eða annars fagfólks.