Skip to main content


Nú teljast sextíu prósent Íslendinga of feitir en tuttugu prósent eru taldir glíma við offitu

Íslendingar eru ofarlega á lista yfir feitustu þjóðir heims samkvæmt skýrslu OECD. Skýrslan,sem kemur út árlega, sýnir að 60 prósent íslensku þjóðarinnar eru yfir kjörþyngd og tveir af hverjum tíu eru offitusjúklingar. Skýrslan sýnir einnig að offita barna hefur aukist hér landi.

„Þetta er mjög óæskileg þróun“ segir Bylgja Valtýsdóttir upplýsingarfulltrúi Hjartaverndar, um skýrslu OECDum offitu og ofþyngd.
Íslendingar eru að feta sig upp listann yfir feitustu þjóðir heims og hefur þetta víðtæk áhrif á heilsu landsmanna. Einn fylgifiskur offitu er aukin áhætta á hjarta-og æðasjúkdómum og þarf að snúa þessari þróun við.

60 prósent of feitir
Skýrsla OECD sýnir að íbúar heims, þá eina helst á Vesturlöndum, hafa fitnað gríðarlega á síðustu 30 árum. Bandaríkjamenn, sem sitja í efsta sæti listans, hafa fitnað mest en skammt undan eru Englendingar og Ástralir. Íslendingar hafa fitnað mikið á undanförnum árum og sitja nú í níunda sæti listans, á eftir Chile en á undan Lúxemborg.

Nú teljast sextíu prósent Íslendinga of feitir en tuttugu prósent eru taldir glíma við offitu. Samkvæmt tölum Alþjóðheilbrigðisstofnunarinnar, sem gefnarvoru út árið 2008, kom í ljós að þjóðin hafði þyngst um sjö til átta kíló á síðustu 40 árum.
Þannig var meðalkarlmaður 83 kíló árið 1967 en árið 2007 var hann kominn upp í 91 kíló. Meðalkonan var 69 kíló árið 1967 en árið 2007 var hún 76 kíló.


Tíðni sjúkdóma eykst
Hjartavernd hefur staðið fyrir viðtækri rannsókn í 40 ár þar sem áhersla er lögð á að finna helstu áhættuþætti og tíðni hjarta-og æðasjúkdóma á Íslandi. Bylgja Valtýsdóttir, upplýsingafulltrúi Hjartaverndar, segir að hár blóðþrýstingur og aðrir áhættuþættir hafi almennt farið skánandi.
Rannsóknir Hjartaverndar sýna að á síðustu árum og áratugum hefur mikill árangur náðst almennt varðandi áhættuþætti hjarta- og æðasjúkdóma en þó er einn þáttur þar sem þróunin er í þveröfuga átt, en það er offita. Þetta hefur átt sinn þátt að sjúkdómar sem tengdir eru líkamsþyngd svo sem sykursýki af tegund 2 sem oft er nefnd fullorðinssykursýki hefur aukist verulega á síðustuárum. Sykursýki er stór áhættuþáttur hjarta- og æðasjúkdóma. „Áhættuþættirnir magna hver annan upp.“ segir Bylgja.


Allt hefur áhrif
„Lýðheilsustöð hefur miðað sína starfsemi við að stuðla að góðri heilsu landsmanna og þar með talið heilsusamlegu holdafari,“ segir í svari frá Lýðheilsustöð Íslands um hvernig bregðast má við vandanum. Þetta hefur verið gert meðal annars með því að stuðla að hreyfingu og góðu mataræði landsmanna.

Það skiptir miklu máli að aðstæður í nánasta umhverfi fólks séu með þeim hætti að þær stuðli að daglegri hreyfingu, góðri næringu og heilbrigðu hugarfari. Reynt hefur verið að stemma stigu við aukinni offitu og með verkefninu „Allt hefur áhrif“ hefur Lýðheilsustöð, í samvinnu við mörg sveitarfélög, meðal annars reynt að bæta skólamötuneyti.

Sem stendur er verið að efla þróunarstarf um heilsueflingu í grunn-og framhaldsskólum
í samstarfi við skóla, mennta- og menningarmálaráðuneytið og heilbrigðisráðuneytið.
Rannsóknir benda þó til þess að hlutfall barna sem eru yfir kjörþyngd sé líklega hætt að aukast, eftir mikla aukningu á seinni hluta 20. aldar. Lýðheilsustöð leggur þó áherslu á það, að í umræðum um börn, er mikilvægt að hafa í huga að mikil áhersla á holdafar getur valdið börnum vanlíðan. Þannig telja ýmsir að of mikil áhersla á umfjöllun um holdafar í fjölmiðlum sé hluti af flókinni orsakakeðju átröskunar, þótt vitanlega hafi fleiri þættir áhrif þar á. Þá ætti opinber umræða frekar að leggja áherslu á mikilvægi þess að börn og fullorðnir hreyfi sig nægjanlega mikið og neyti fjölbreyttrar og hollrar fæðu í stað þess að einblína á líkamsþyngd.


Feitustu þjóðirnar
1. Bandaríkin
2. Mexíkó
3. Nýja-Sjáland
4. Ástralía
5. Bretland
6. Kanada
7. Írland
8. Chile
9. Ísland
10. Lúxemborg

tekið af dv.is þ.27.09.2010