Skip to main content

Á hverju ári verða um 1800-2000 beinþynningarbrot, þar af 300 mjaðmabrot.
Afleiðingarnar eru alvarlegar – skerðing lífsgæða þeirra sem brotna og í alvarlegustu brotunum, mjaðmabrotum, er dánartíðni verulega aukin. Þetta er jafnframt geysilega kostnaðarsamt fyrir samfélagið. Í nýlegri franskri rannsókn var tekinn saman heildarkostnaður við beinþynningarbrot yfir 18 mánaða tímabil. Kostnaður við eitt mjaðmarbrot var sem samsvarar 3,6 milljónum íslenskra króna og samfallsbrot í hrygg kostuðu 2,2 milljónir íslenskra króna.

Beinþynning er algengur sjúkdómur sem einkennist af minnkuðum beinmassa og rýrnun beina sem veldur því að bein brotna mun auðveldar. Algengustu brotin eru úlnliðsbrot, samfallsbrot á hrygg og mjaðmabrot. Hætta á beinþynningu eykst með aldrinum og eru konur í meiri hættu á að fá beinþynningu en karlar. Þá auka ýmsir sjúkdómar, eins og bólgusjúkdómar, ýmsir innkirtlasjúkdómar og krabbamein algengi beinþynningar.

Beinþynning gefur engin einkenni og því hefur hún verið kölluð þögull sjúkdómur. Sá sem fyrir henni verður finnur ekki fyrir henni fyrr en við brot, sem getur orðið við lítinn áverka eins og við fall á jafnsléttu, eða að upp kemur slæmur bakverkur eftir að hafa borið þungan poka.

Byrgja skal brunninn áður en barnið dettur ofan í hann. Því er mikilvægt að finna þá sem eru í mestri áhættu að brotna og fyrirbyggja að þeir fái brot. Beinþynningu er hægt að greina með sértækri röntgenrannsókn þar sem þéttni beinsins er mæld í hrygg og mjöðmum. Rannsóknin tekur skamman tíma, ekki nema um 20 mínútur og er með öllu skaðlaus. Þá er einnig er hægt að framkvæma áhættumat þar sem unnt er að spá fyrir um líkurnar á því að brotna næstu 10 árin.

Ástæður beinþynningar skýrast einna helst af erfðum og umhverfinu. Notkun sykurstera hefur skaðleg áhrif á beinin og minnkar beinþéttnina. Hreyfingarleysi, reykingar og óhófleg áfengisneysla hefur líka skaðleg áhrif á beinin.

Það er margt sem maður getur gert sjálfur. Mikilvægt er að huga vandlega að næringunni, takmarka áfengisneyslu og hætta reykingum ef við ái. Góð hugmynd er að taka inn lýsi eða D vítamíntöflur og fá nægilegt kalk úr fæðunni. Regluleg hreyfing er mikilvæg fyrir vöðva og bein. Öll hreyfing er af hinu góða. Styrktar- og jafnvægisæfingar eru mjög mikilvægar til að styrkja vöðva og bein og hindra byltur. Einnig er mikilvægt að huga að byltuvörnum heima fyrir, forðast lausar snúrur og mottur, hafa góða lýsingu innan dyra, vera í góðum skóm og nota brodda þegar hálka er úti á veturna. Fyrir þá sem eru með beingisnun og áhættuþætti eða beinþynningu kemur lyfjameðferð stundum til álita. Mikilvægt er að ræða slíkt við lækninn sinn.

Beinbrot hafa í flestum tilvikum alvarlegar afleiðingar fyrir þann sem brotnar, löng lega á sjúkrastofnunum ásamt skertri hreyfigetu, fjarvera úr vinnu og félagslífi leiðir til verri lífsgæða.Nýleg íslensk rannsókn sýndi að nærri þriðjungur þeirra sem mjaðmabrotna látast innan árs vegna fylgikvilla brotanna, en það er áttföld dánartíðni jafnaldra3 .

Í dag 20. okt er alþjóðlegur dagur beinþynningar. Beinþynning er algeng, oft vangreind og afleiðingar geta verið alvarlegar. Það er því til mikils að vinna ef við getum fækkað beinþynningarbrotum á Íslandi.

Höfundar eru sérfræðilæknar í Heilsuklasanum. Sigríður Björnsdóttir innkirtla- og efnaskiptalæknir og Ragnar Freyr Ingvarsson, gigtarlæknir og framkvæmdastjóri Beinstyrks.

tekið af https://www.visir.is/g/20232476551d/beinthynning-hvad-get-eg-gert-til-ad-fyrirbyggja-brot-

Heimildir:

1. Sigurðsson G, Siggeirsdóttir K, Jónsson BY, Mogensen B, Guðmundsson EF, Aspelund T, et al. Yfirlitsgrein. Úr gögnum Hjartaverndar: Nokkur atriði um faraldsfræði og áhættumat beinbrota á Íslandi. Læknablaðið 2017; 103: 423-8.

2. Coassy A, Svedbom A, Locrelle H, Chapurlat R, Cortet B, Fardellone P, Orcel P, Roux C, Borgström F, Kanis JA, Thomas T.Osteoporos Int. 2022 Mar;33(3):625-635. doi: 10.1007/s00198-021-06189-7. Epub 2021 Oct 12.PMID: 34642813

3. Magnusson KA, Gunnarsson B, Sigurðsson GH, Mogensen B, Ólafsson Y, Kárason S. Meðferð og afdrif sjúklinga með mjaðmabrot. Læknablaðið 2016; 102: 119-23.