Skip to main content

Vísindamenn og sérfræðingar í heilbrigðsvísindum greinir á um hvort vefjagigt og síþreyta sé í raun sami sjúkdómurinn þar sem ákveðin einkenni erumisáberandi, eða hvort um tvo mismunandi sjúkdóma sé að ræða. Síþreyta (CFS, M.E.) hefur áratugum saman verið í höndum sérfræðinga í taugalækningum en meðferð vefjagigtar hefur meira verið í höndum gigtarlækna. Mjög margir þeirra sem þjást af síþreytu eða/og vefjagigt hafa þó leitað til beggja sérfræðistétta og fengið greininguna síþreyta hjá taugalækninum en vefjagigt hjá gigtlækninum. Þannig að einstaklingur getur fengið sitt hvora sjúkdómsgreininguna hjá mismunandi læknum. Ástæðan fyrir því er einföld. Vefjagigt og síþreyta hafa mjög mörg einkenni sameiginleg, svo mörg að stundum er erfitt að greina þar á milli þ.e. viðkomandi uppfyllir sjúkdómsgreiningar fyrir bæði síþreytu og vefjagigt. 

Skýringin á þessu er að mjög margir einstaklingar með vefjagigt hafa einnig síþreytu og svo öfugt. Raunin er sú að nær allir vefjagigtarsjúklingar eru með óeðlilega þreytu og hluti þeirra á því stigi að kalla má síþreytu. Mjög fáir síþreytusjúklingar eru með hreina síþreytu þ.e. án vefjagigtar og það eru í flestum tilvikum þeir sem hafa haft síþreytu í fremur stuttan tíma og fengið hana upp úr sýkingu. Hafa ber í huga að ákveðinn hluti þeirra sem fá síþreytu læknast af henni á nokkrum mánuðum, einu eða fleiri árum, en stærsti hlutinn er að klást við einkennin ævina út. Vefjagigtareinkenni hafa tilhneigingu til að þróast í áranna rás ef ekki fæst bót á síþreytunni . 

Einn stór munur er á vefjagigt og síþreytu en það er að síþreyta byrjar í mörgum tilvikum á ákveðnum tímapunkti með flensulíkum einkennum, veikindum sem engan enda taka og viðkomandi er alltaf yfirkominn af þreytu og getur sofið og sofið. Í einstaka tilfellum er hægt að rekja upphaf einkenna til ákveðinnar vírussýkingar og eru nokkrir vírusar þekktir orsakavaldar. Á hinn bóginn hefur vefjagigt tilhneigingu til að þróast á löngum tíma en í flestum tilvikum má finna sjúkdómskveikjur eina eða fleiri, álag, andlegt eða líkamlegt, truflaðan svefn, langvinnt verkjaástand, aðrir undirliggjandi sjúkdómar, sýkingar ofl. Vírussýking sem veldur síþreytu getur þannig verið kveikja að því að vefjagigt þróist upp.

Í Fibromyalgia AWARE (sept. 2002) , tímariti Alþjóðavefjagigtar félagsins (National Fibromyalgia Asssociation) staðhæfir Charles W. Lapp sem er sérfræðingur í vefjagigt og síþreytu að um 70% af fólki með síþreytu uppfylli greiningarviðmið fyrir vefjagigt og um 70% þeirra sem eru með vefjagigt uppfylli greiningarviðmið fyrir síþreytu. 

Vefjagigt á sér þúsund myndir, einkennin stafa fyrst og fremst af truflunum í miðtaugakerfinu og taugakerfið stjórnar allri líkamsstarfseminni. Einkennin eru því mjög mismunandi milli einstaklinga og í raun hægt að skipta vefjagigt upp í margar deildir eftir því hvaða einkenni eru mest áberandi. Deildirnar gætu t.d. verið eftirfarandi: 

Vefjagigt og mígreni 
Vefjagigt og síþreyta 
Vefjagigt og iðraólga (IBS) 
Vefjagigt og millivefjablöðrubólga (Interstitial cystitis) 
Vefjagigt og fótaóeirð 
Vefjagigt og vöðvaslappleiki 
Vefjagigt og síþreyta, mígreni, iðraólga (IBS), millivefjablöðrubólga (Interstitial cystitis), fótaóeirð, vöðvaslappleiki.

Meðferð við öllum sértækum einkennum vefjagigtar þarf að meðhöndla sérstaklega hvort sem það er síþreyta, iðraólga, fótaóeirð, millivefjablöðrubólga eða annað. Í öllum tilvikum þarf meðferð að vera heildræn og meðferð við síþreytu og vefjagigt er að stórum hluta sú saman, en ef síþreytuþátturinn er sterkur þarf að passa enn betur upp á álag í æfingum og í daglegu lífi.    fengið að láni www.vefjagigt.is