Skip to main content

Orkudrykkurinn Burn og hið rammíslenska Egils Malt eru þeir gosdrykkir sem innihalda mestan sykur. Í hálfum lítra af Burn er sykur sem jafnast á við 36 sykurmola.
Í malti eru 35, í Egils Orku 31 og í 7-Up er ígildi 30 sykurmola. Sykraðir gosdrykkir sem seldir eru á Íslandi innihalda sykur sem jafngildir 25 til 36 sykurmolum, en hver moli er um tvö grömm. Undantekningin frá þessari reglu eru Kristal plús drykkirnir frá Egils. Þeir innihalda 12 til 14 sykurmola, eða helmingi minna magn sykurs.

Orka en engin næring
Næringarfræðingurinn Ólafur Gunnar Sæmundsson segir að með neyslu gosdrykkja fáum við mikla orku en engin næringarefni, ólíkt því sem gerist þegar ávaxtadrykkja er neytt. „Í þessum drykkjum eru engin efni á borð við vítamín og steinefni, sem hafa mikilvægu hlutverki að gegna í líkamanum,“ segir hann. Ólafur segir að sá sykur sem sé yfirleitt í gosdrykkjum sé svokallaður súkrósi. Hann samanstandi af þrúgusykri (glúkósa) og ávaxtasykri (frúktósa). „Þegar þeir tengjast saman verður þessi svokallaði hvíti sykur eða viðbætti sykur til,“ segir hann og heldur áfram. „Orkulega séð er enginn munur á ávaxtasafa og gosdrykkjum en næringarlega séð getur verið töluverður munur,“ segir hann.

Gagnslaus áróður
Ólafur segir afar einstaklingsbundið hversu mikils magns af gosdrykkjum sé í lagi að neyta. „Það er allt of allt of oft litið framhjá því að þarfir okkar eru mjög misjafnar. Ef brennslan er lítil og hreyfing lítil megum við miklu minna við svona mat sem gefur lítið annað en orkuna. Ef við miðum hins vegar við einstakling sem er á fullu í íþróttum getur hann þurft að hafa verulega fyrir því að fá nógu margar hitaeiningar. Það er því voðalega erfitt að gefa þumalputtareglur þegar kemur að neyslu sykraðra drykkja,“ segr Ólafur og bætir við að taka verði með í reikninginn hvað annað einstaklingurinn borði. „Það má ekki vera með einhvern hræðsluáróður með þetta,“ segir hann.
Aðspurður segir hann að sykurneysla þjóðarinnar hafi, merkilegt nokk, dregist heldur saman frá árinu 1968, þegar hún náði hámarki. „Það er ofboðslega mikill áróður gegn gosinu. Þetta er svona áróður sem margir innan heilsustéttar hafa sameinast um að taka þátt í. Hann skilar að mínu mati engu þegar upp er staðið. Neysla á sykruðum gosdrykkjum hefur minnkað á undanförnum árum,“ segir Ólafur. Hann segir þó að neysla gosdrykkja hafi aukist ef horft sé á undanfarna áratugi en allra síðustu ár hafi þó dregið úr neyslu gosdrykkja. Heildarneysla sykurs hafi heldur dregist saman frá því sem hún var fyrir 40 árum.

Aspartam ekki hættulegt
Svokallaðir diet drykkir eða sykurlausir drykkir hafa fyrir löngu rutt sér til rúms á Íslandi. Ólafur segir að með tilvist þeirra hafi þeir, sem þurfi að passa upp á fjölda hitaeininga en vilji fá eitthvað annað bragð en af vatninu og mjólkinni, val. „Þeir geta þá leitað í diet drykki þar sem hitaeiningarnar eru nánast engar,“ segir hann.
Ólafur segir furðulegt að fylgjast með umræðunni um diet drykkina. Sérstaklega gervisætuefninu apartam, sem sé það aukaefni í matvælum, sem mest hafi verið rannsakað af þeim öllum. „Ef það væri einhver hætta á því að efnið myndi leiða til krabbameins í heila eða jafnvel blindu hlyti það að sjást í mælingum á tíðni slíkra sjúkdóma. Því er ekki til að dreifa,“ segir hann. Hann segir að eftirlitsstofnanir hafi í meira en 20 ár sýnt fram á að þessi efni séu skaðlaus. „Það er hægt að vitna í eina og eina músarannsókn sem sýnir fram á skaðsemi í músum. En alltaf þegar þetta hefur verið rannsakað af óhlutdrægum aðilum hefur komið í ljós að þessar rannsóknir standa ekki á föstum grunni,“ segir hann.
Hann segir enn fremur að meginvandi Íslendinga sé samviskubitið: „Við erum alltaf að drepast úr samviskubiti og höldum alltaf að við séum að borða eitthvað rosalega óhollt.“

Koffínið varasamt
Í mörgum gos- og orkudrykkjum eru örvandi efni á borð við koffín. Mikil neysla barna og unglinga á koffíni getur verið varhugaverð að sögn Ólafs. „Koffín er flokkað til lyfs ef það fer yfir ákveðin mörk. Við næringarfræðingar höfum áhyggjur af mikilli neyslu á meðal barna og unglinga. Koffín í miklum mæli getur leitt til skjálfta, hjartsláttartruflana og magaverkja, eins og þeir þekkja sem drekka mikið kaffi. Ég bendi á að ef koffínmagn í blóði fer yfir ákveðin mörk hjá íþróttamönnum eru þeir settir í bann,“ segir hann.

Fjöldi sykurmola í 0,5 lítrum:

Burn 36 *
Malt 35
Orka 31
7-up 30
Cult 29
Fanta Lemon 29
Mix 29
Appelsín 29
XL 28
Red Bull 28
Magic 28
Pepsi Cola 28
Burn juiced energy 27
Coke 27
Fanta 26
Sprite 25
Kristal + rauður 14
Kristall + blár 12
Kristall + grænn 12

*Á umbúðum sumra gosdrykkja kemur magn kolvetna fram en ekki magn sykurs. Kolvetni eru hins vegar flokkuð í einsykrur, tvísykrur og fjölsykrur. Að sögn Ólafs Gunnars enda kolvetnin öll í líkamanum sem glúkósi.


tekið af vef www.dv.is