Skip to main content

Börn sem fá ekki nægan svefn eiga á hættu að verða of þung, samkvæmt niðurstöðum nýrrar rannsóknar sem gerð var á Nýja Sjálandi. Rannsóknin birtist í BMJ læknaritinu á dögunum. Í rannsókninni var fylgst með 244 börnum á aldrinum 3ja ára til sjö ára. Niðurstöður benda til þess að tengsl séu á milli svefns og þyngdar. Meiri svefn virðist hafa svo sterk tengsl við minni þyngd að það skipti máli fyrir heilsu barnanna.

Rannsakendur hittu börnin á sex mánaða fresti þar sem þyngd, hæð og líkamsfita voru mæld. Rannsakendur mældu líka svefnvenjur og hreyfingu þegar börnin voru þriggja, fjögurra og fimm ára gömul. Rannsakendur komust að því að þau börn sem sváfu minna þegar þau voru ung áttu meiri hættu á að hafa hærri BMI stuðul þegar þau höfðu náð sjö ára aldri. Þessi tengsl héldust jafnvel þótt tekið væri tillit til þátta eins og kyns og líkamshreyfingar.

Ýmsar skýringar voru gefnar á þessum tengslum. Ein skýringin var sú að börn sem sofa minna hafa einfaldlega meiri tíma til að borða. Önnur skýringin var sú að svefn hafi áhrif á hormón sem tengist lyst barnanna.

Lesa nánar:

http://www.bmj.com/content/342/bmj.d2712

http://www.sciencedaily.com/releases/2011/05/110526205103.htm

tekið af visir.is þ.27.05.2011