Skip to main content

Algengt er að sjá börn sem bera þungar skólatöskur ganga hokin og með framdregnar axlir. Þetta getur smám saman leitt til verkja í herðum og baki, sem getur verið upphaf stoðkerfisvandamála síðar á ævinni.  Að bera of þunga tösku eða að nota hana á rangan hátt getur valdið sársauka og vöðvabólgu.
Skólatöskur eru fáanlegar í mörgum stærðum fyrir mismunandi aldurshópa.  Mikilvægt er að velja rétta stærð fyrir bak barnsins sem og tösku sem hefur nægt pláss fyrir nauðsynleg skólagögn.

Hvernig á skólataska að vera og hvernig á að nota hana?

  • Skólataskan þarf að liggja þétt upp við hrygg barnsins og sitja á mjöðmum til að álagið dreifist jafnt á líkamann. Nota skal axlarólar sem og mittisólar til að stilla töskuna fyrir barnið. Það gerir barninu kleift að hreyfa sig eðlilega og jafnvel hlaupa með töskuna á bakinu.
  • Veljið tösku með bólstruðum axlarólum. Of mikill þrýstingur á herðar barnsins  getur valdið sársauka og dofa í hálsi, handleggjum og höndum.
  • Mikilvægt er að nota báðar axlarólar. Varast ber að nota skólatöskuna aðeins á annarri öxlinni, þar sem að sveigja kemur á hryggsúluna og getur valdið sársauka eða óþægindum.
  • Skipuleggið hlutina í töskuna þannig að þyngstu hlutirnir séu sem næst baki barnsins og að þeir séu stöðugir og renni ekki til í töskunni.
  • Nauðsynlegt er að botn töskunnar sé stífur svo vel fari um bækurnar.
  • Farið daglega yfir það sem barnið tekur með sér í skólann. Gætið þess að einungis séu þeir hlutir sem nauðsynlegir eru fyrir barnið þann daginn.
  • Ekki er æskilegt að barnið beri tösku sem vegur meira en 15% af líkamsþyngd barnsins.  Það þýðir að ef barnið þitt vegur 40 kg þá á það ekki að bera tösku þyngri en 6 kg.


Þegar skólataska er valin

Takið  barnið með þegar kaupa á skólatösku, til að velja rétta stærð og breidd og athugið hvort taskan liggur þétt að hryggnum. Nauðsynlegt er að hafa bækur í töskunni þegar hún er mátuð t.d. má miða við 2 kg fyrir 6 ára barn.
Gæta þarf þess að taskan sé ekki of breið svo að olnbogar rekist ekki í þegar barnið gengur. Látið barnið prófa hvort auðvelt sé að losa og herða böndin.
Það er mikilvægt að spyrja barnið hvernig því líki að bera töskuna en ekki einblína á útlitið.


Með því að vanda val á skólatösku stuðlum við að góðum líkamsburði og komum í veg fyrir álagseinkenni frá herðum og baki. Þar með stuðlum við að bættu heilbrigði síðar á lífsleiðinni.

Samantekt úr gögnum frá heimasíðu landlæknis www.landlaeknir.is og frá Iðjuþjálfafélagi Íslands www.sigl.is