Í samstarfi við Hlíðarfjall á Akureyri hafa nokkrir ferskir einstaklingar tekið höndum saman og vilja leggja sitt að mörkum til þess að auka aðgengi allra að skíðamennskunni. Markmið þeirra er að gera einstaklingum sem glíma við fötlun möguleika á að geta stundað þá útivist og hreyfingu sem hugur þeirra stendur til þrátt fyrir líkamlega-, andlega- eða félagslega skerðingu.
Þetta verður gert með því að aðstoða þessa einstaklinga við að útfæra og framkvæma skíðamennsku.
Möguleiki einstaklinga með sérþarfir á að komast í útivist hefur verið mjög takmarkaður og hafa þeir ekki getað nýtt sér þau tilboð sem annars eru í boði fyrir almenning.
Þessir einstaklingar þurfa á sérúrræðum að halda s.s. aðstoðarmanni, sértækri nálgun eða sértækum búnaði sem almennt er ekki gert ráð fyrir. Við munum leitast við að koma upp þjónustu fyrir þennan hóp þar sem þeir geta fengið faglega aðstoð og sérúrræði sem gerir þeim kleift að taka virkan þátt þrátt fyrir fötlun.
Þjónustan sem við munum veita verður margvísleg og mun væntanlega þróast eftir því sem reynsla okkar verður meiri og eftir því sem notendur kalla á.
Notast verður við þann búnað sem völ verður á, sérhannaða skíðasleða og/eða annan útbúnað ef þörf er á sérbúnaði. Aðstoð tekur mið af þörf sem fyrir er, getur verið persónuleg aðstoð, kennsla, ráðgjöf, leiðbeiningar og/eða samstarf við aðstandendur.
Þjónustan getur verið einstaklingstengd og/eða gagnvart hópum.
Þegar fyrirtækið hefur náð að festa sig í sessi þá verður leitast við að bjóða uppá úrræði til þess að uppfylla hvers kyns óskir um útivist sem upp kunna að koma.
Ef þið hafið einhverjar spurningar eða viljið panta kennslu þá hafið samband við Elsu í síma 864-2062 eða sendið tölvupóst á elsa@saltvik.is
· Fyrir hvaða aldur? Allir velkomnir til okkar.
· Fyrir hverja? Krakka og fullorðna sem vilja læra á skíði en þurfa aðstoð.
· Hvenær get ég komið? Annan hvern föstudag í allan vetur eða 22. jan, 5., 12 og 19. feb, 5. og 19. mars, og 2., 16 og 30. apríl 2010. Eins er alltaf hægt að hafa samband og finna annan tímaJ.
· Hvað kostar þetta? Klukkutíminn kostar 2000kr og 2 tímar kosta 3500kr
· Hvernig panta ég? Nauðsynlegt er að panta fyrirfram og þá er best að hafa samband við Elsu í síma 864-2062 eða senda mér tölvupóst á elsa@saltvik.is
tekið af vef CP-félagsins www.cp.is