Skip to main content

Orsakir
Parkinsonsveiki er hægfara hnignun í þeim hluta miðtaugakerfisins, sem stýrir og samhæfir líkamshreyfingu. Einkenni sjúkdómsins koma fram vegna skorts á boðefninu dópamíni, sem heilinn framleiðir. Framleiðsla dópamíns minnkar vegna frumudauða í svonefndum sortukjarna (substantia nigra) í miðheila. Þegar einkennin koma fram hefur sjúklingurinn misst 80- 90 prósent dópamínfrumanna. Áætlað er að parkinsonssjúklingar á Íslandi séu um 600. Algengast er að sjúkdómseinkenni komi fram hjá fólki á aldrinum 50-70 ára og talið er að 1% þeirra sem eru 65 ára og eldri hafi sjúkdóminn. Sjúkdómurinn greinist einnig hjá yngra fólki.

Einkenni
Helstu einkenni veikinnar eru skjálfti, hægar hreyfingar og vöðvastirðleiki. Önnur einkenni eru m.a. stífni, trufluð líkamsstaða (álút líkamsstaða), tilhneiging til að festast í ákveðinni líkamsstöðu , truflun á jafnvægi, talörðuleikar (röddin verður lágvær og stundum óskýr). Önnur einkenni geta komið fram síðar. Í fyrstu er algengast að einkennin komi fram í annarri líkamshlið. Einkennin geta verið mismunandi milli einstaklinga en einnig frá degi til dags eða frá einum tíma til annars hjá sama einstaklingi. Sjúkdómseinkenni versna við allt álag og streitu, og því er æskilegt að draga úr slíkum áhrifum, leiðrétta svefn, depurð og kvíða svo og önnur einkenni, sem geta haft áhrif á almenna vellíðan.

Greining og framgangur
Greining sjúkdómsins byggist aðallega á mati sérfræðings þar sem ekki hefur tekist að þróa rannsóknaraðferðir til þess að greina sjúkdóminn t.d. í blóði eða öðrum lífssýnum. Rannsóknir geta aftur á móti útilokað ýmsa aðra sjúkdóma. Ákveðin gerð heilasneiðmynda getur þó gefið vísbendingar um greininguna við sjúkdómsbyrjun og í vafatilfellum. Góð langtímalyfjasvörun er talin staðfesta greininguna. Framgangur sjúkdómsins er mishraður en fyrstu árin leiðréttir lyfjameðferð sjúkdómseinkennin að mestu. Þegar frá líður koma oft fram frekari einkenni svo sem ónóg lyfjasvörun og meðferðarháðar aukahreyfingar.
Lyfjameðferð við parkinsonsveiki byggir aðallega á tveim flokkum lyfja, hinum svonefndu dópamínsamherjum, þ.e. efni sem breytist í dópamín í heila og svo dópamínörvum, sem örva dópamínviðtöku heilans.
Sjúkraþjálfun getur verið mjög gagnleg til þess að viðhalda góðri hreyfifærni. Raddþjálfun er einnig mikilvægur þáttur. Á síðustu árum hefur aðgerð á heila, þar sem rafskauti er komið fyrir til að örva þær frumur sem enn eru starfhæfar, gefið góða raun. Möguleikar parkinsonssjúklings til þess að nýta sér þau lífsgæði, sem í boði eru, aukast ár frá ári.

(Tekið af vef Parkinsonssamtakana á Íslandi www.parkinson.is )