Skip to main content

Ný rannsókn gefur von um að hægt sé að hafa áhrif á langvinna lungnateppu í framtíðinni
Íslenskir vísindamenn frá Hjartavernd og Háskóla Íslands undir forsvari Vilmundur Guðnasonar forstöðulæknis Hjartaverndar og prófessors við Háskóla Íslands hafa í samvinnu við alþjóðlegan hóp vísindamanna fundið 16 ný genasvæði í erfðamengi mannsins sem tengjast öndunarvegum og starfsemi lungna. Frá þessu er greint í forbirtingu vefútgáfu vísindatímaritsins Nature Genetics Rannsóknin náði til nærri hundrað þúsund einstaklinga þar á meðal þátttakenda í Öldrunarrannsókn Hjartaverndar. Þátttakendurnir gengust undir ítarlegar vísindalegar mælingar sem er forsenda þess að unnt var að finna þessi nýju genasvæði.
Rannsóknir á öndunarvegum eru mikilvægar til að meta lungnasjúkdóma eins og langvinna lungnateppu og ótímabær dauðsföll. Langvinn lungnateppa er vaxandi vandamál. Samkvæmt upplýsingum frá alþjóðlega lungnasjúkdóma vinnuhópnum GOLD er reiknað með að árið 2020 muni langvinn lungnateppa verða þriðja algengasta dánarorsökin en í dag er hún í sjötta sæti. Ástæða þess að algengi sjúkdómsins mun fara hratt vaxandi eru áhættuþættir s.s. reykingar og mengun ásamt verulegri aukningu aldraðra. Langvinn lungnateppa krefst meðferðar og er kostnaðarsöm bæði fyrir þjóðfélagið og fyrir einstaklingana sjálfa. Rannsóknir hafa áður sýnt að langvinn lungateppa hefur umtalsverða ættlægni.
Nærri öll genin sem fundust í þessari rannsókn sýndu virkni í lungnavef. Þetta er afar þýðingarmikið þar sem gen sem eiga þátt í þróun sjúkdómsins varpa ljósi á hvaða efnaskipta og frumferlar eiga í hlut í þróun langvinnrar lungnateppu . Líklegt er að þessi aukna þekking geti gefið aukið forspárgildi fyrir þá einstaklinga sem munu þróa með sér slíkan sjúkdóm og þannig hugsanlega gefið möguleika á fyrirbyggjandi læknismeðferð. Þetta mun þá þýða að hægt verður að seinka eða jafnvel stöðva þróun sjúkdómsins. Auk tengingar við langvinna lungnateppu sýndu sum genanna tengingu við aðra þætti eins og hæð einstaklinga eða sjúkdóma á borð við lungnakrabbamein og hjartaáföll.
Enn eitt mikilvægi þessara rannsóknar er að hún mun gera öðrum vísindamönnum sem ekki hafa eins góðar svipfarsupplýsingar og Rannsóknarstöð Hjartaverndar, kleift að leita að sjaldgæfum stökkbreytingum í viðkomandi genum og hugsanlega tengja þær lungnasjúkdómum eins og langvinnri lungnateppu. Þótt stökkbreytingarnar séu sjaldgæfar þá er mögulegt að þær geti hjálpað í greiningu á áhættu hjá einhverjum einstaklingum sem tilheyra fjölskyldum þar sem ættlægni er mikil. Þetta hefur komið í ljós að undanförnu í mörgum rannsóknum á öðrum sjúkdómum eins og krabbameini.


tekið af vef www.hjarta.is