Skip to main content

Lýðheilsustöð hefur hvatt bakara landsins til að draga úr salti í brauðum, sem margir hafa þegar gert. Þetta er liður í að stuðla að minni saltneyslu landsmanna, sem heilsunnar vegna er of mikil. Landsmenn borða talsvert af brauði, þótt neysla grófs brauðs mætti vera meiri, og með því að minnka saltmagnið geta bakarar lagt sitt af mörkum til bættrar heilsu landsmanna.
Ráðlagt er að dagleg saltneysla sé ekki meiri en 6-7 grömm að hámarki á dag en samkvæmt síðustu landskönnun á mataræði er hún að minnsta kosti 9 grömm að meðaltali. Of mikil saltneysla getur átt þátt í að hækka blóðþrýsting en of hár blóðþrýstingur, háþrýstingur, er einn af áhættuþáttum hjarta- og æðasjúkdóma.

Stærsti hluti salts í fæði Íslendinga, eða um 80%, kom úr tilbúnum matvörum, samkvæmt landskönnun á mataræði. Matvörur eins og brauð, unnar kjötvörur og ostar lögðu þar til stærstan hluta. Þetta samstarf við bakara er fyrsta skrefið í að fá matvælaframleiðendur til að draga úr magni salts í matvörum sínum.

Saltmagn í brauðum kannað
Lýðheilsustöð og Samtök iðnaðarins stóðu fyrir rannsókn sumarið 2007 þar sem kannað var saltmagn í brauðuppskriftum hér á landi. Niðurstaða hennar var sú að svigrúm sé til að minnka saltmagn í brauðum. Í kjölfarið lét stöðin útbúa veggspjald, sem allir bakarar fengu sent, en á því eru upplýsingar um saltneyslu og bent á leiðir til að draga úr saltmagni í brauðum án þess að það eigi að koma niður á gæðum eða bragði.

Hægt er að prenta veggspjaldið hér út af síðunni eða panta hjá Lýðheilsustöð.

Eftirfylgni með veggspjaldi
Til að fylgja veggspjaldinu eftir voru nemar í námskeiðinu lýðheilsunæringarfræði við Háskóla Íslands fengnir til að gera könnun á meðal bakara. Við könnunina kom í ljós að nú þegar hafa þó nokkur bakarí dregið úr saltmagni í brauðum og nokkur hyggjast gera það á þessu ári. Niðurstöður efnamælinga á nokkrum algengum brauðum sem MATÍS gerði á síðasta ári sýndu einnig að saltmagn hafði minnkað um 20-25% frá síðustu mælingum.

Bakarar hvattir til að láta neytendur vita
Það væri til hagsbóta fyrir neytendur að þau bakarí sem hafa minnkað saltmagn í brauðum greini frá því. Lýðheilsustöð þakkar bökurum fyrir samstarfið og hvetur þá til að halda áfram á sömu braut, þannig að salt í brauðum haldi áfram að minnka og bakarar hafi þannig lagt sitt af mörkum til að draga úr saltneyslu landsmanna.

tekið af vef lýðheilsustöðvar: www.lydheilsustod.is