Skip to main content

Börn sem fá ekki nægan svefn eru líklegri en önnur sem það gera til að þjást af offitu samkvæmt nýlegri rannsókn sem  birtist í læknablaðinu Pediatrics í gær. Rannsóknin var unnin af vísindamönnum í háskólum í Chicago og Louisville í Bandaríkjunum og náði til rúmlega þrjúhundruð barna á aldrinum fjögurra til tíu ára. Upplýsingum var safnað um líkamsþyngdarstuðul þeirra, en hann mælir þyngd í hlutfalli við hæð og er gott viðmið um heildarfitumagn líkamans. Börnin voru látin ganga með sérstakt úlnliðsband í tvær vikur sem skráði upplýsingar um svefnvenjur þeirra. Nokkur börn fóru einnig í blóðtöku til þess að mæla glúkósa, insúlín, fitusýruhlekki og kólesterólmagn í blóði.
Samkvæmt niðurstöðum rannsóknarinnar sváfu börnin að meðaltali átta klukkustundir á nóttu, en ráðlegur svefntími eru a.m.k. níu klukkustundir fyrir börn í fyrrnefndum aldurshópi. Þau börn sem sváfu a.m.k. níu og hálfa til tíu klukkustundir á nóttu voru ólíklegust til að þjást af offitu. Börnin sem sváfu minnst og höfðu óreglu á svefntíma sínum áttu í meiri hættu á að vera of feit. Þá kom í ljós að þau börn sem sváfu vel um helgar áttu í minni hættu á að vera of feit.

Þriðjungur barna og unglinga í Bandaríkjunum er of þungur en offita eykur líkur á sykursýki 2, of háu kólesteróli og öðrum heilsufarsvandamálum. Fyrri rannsóknir á efninu hafa sýnt að of litill svefn getur leitt til offitu þar sem hormónastarfsemi sem stjórnar hungurtilfinningu raskast.

Hægt er að nálgast greinina frá Pediatrics hér:

tekið af www. mbl.is þ. 25.1.2011