Í nýjasta tölublaði Læknablaðsins er birt ný íslensk könnun á aukaverkunum náttúruefna sem sýnir að lifrarskaði af völdum svonefndra eiturnarlifrarbólgu var oftast tengdur notkun Herbalife.
Í greininni kemur fram að það hljóti að teljast alvarlegt mál ef vörur sem eiga að bæta heilsufar hafa alvarlegar aukaverkanir, jafnvel þó það sé í litlum mæli. Nokkrar umræður hafa orðið um algengi aukaverkana frá lifur við neyslu Herbalife og hafa fulltrúar fyrirtækisins reynt að gera lítið úr hættunni. Hins vegar hefur verið á það bent að skráningu aukaverkana náttúruefna er víðast hvar mjög ábótavant og kannski höfum við bara séð topp ísjakans. Ekki liggja fyrir upplýsingar um það magn náttúru- og fæðubótarefna sem neytt er hér á landi og ef til vill þyrfti að efla eftirlit með þessum vöruflokki.