Leikdagur aldraðra var fyrst haldinn 1987 og fór fyrstu fimm árin fram utanhúss, en frá Evrópudegi aldraðra 1993 hefur hátíðin verið haldin innanhúss,? segir Guðrún Nielsen, formaður Félags áhugafólks um íþróttir aldraðra, sem stendur fyrir Leikdegi aldraðra í Íþróttahúsinu við Austurberg á morgun, öskudag.
Eitt helsta markmið leikdagsins er útbreiðsla sem nú er farin að skila sér því hátíðin verður haldin víðar en í Austurbergi, svo sem á Hrafnistu og Grund í Reykjavík.
Guðrún segir íþróttir aldraðra alltaf vera hugsaðar sem innlegg í heilsuvernd og því megi þær ekki útheimta svo mikil átök að heilsu iðkenda sé stefnt í voða.
Nú eru boccia og pútt mjög vinsælt og í því keppt á vorin og haustin. Þá er leikfimi og sund sívinsæl, sem og göngur, sem eru eitt það albesta fyrir fólk í hreyfingu og útivist, og línu- og þjóðdansar.
Guðrún segir markmið félagsins að stuðla að betri líðan eldra fólks með reglulegri hreyfingu.
Aldraðir eru að verða æ duglegri að hreyfa sig og eftir því sem yngra fólk kemur inn eykst vitund um gildi hreyfingar, því með yngri kynslóðum eldri borgara bætast æ fleiri við sem stundað hafa íþróttir, jafnvel alla ævi.
Guðrún segir aldraða hlakka mjög til leikdagsins á morgun. Við ætlum að hreyfa okkur og horfa á línudans, jóga, hreyfingu í sætum, léttan vals og atriði eins og Krumma sem sló í gegn á fimleikamóti aldraðra á Kanaríeyjum.
Þá flytur Ernst Backman einsöng, en söngur og það að læra texta eru góð heilaleikfimi fyrir aldraða, því það þarf vitaskuld að virkja þessar gráu í kolli okkar líka,? segir Guðrún glaðbeitt, og vonast til að nægur tími gefist fyrir dans undir leik Vinabandsins.
Leikdagur aldraðra verður á öskudaginn og stendur frá
klukkan 14 til 16. Húsið er opnað 13.30.
Tekið af vef www.visir.is þ.24.2.2008