Skip to main content

Sjúkdómar sem orsakast af æðakölkun svo sem kransæðasjúkdómur, þrengsl í stórum fótaslagæðum og heilaáföll eru megin ástæður veikinda hjá sykursjúkum. Áhætta sykursjúkra á að fá t.d hjartaáfall er mjög aukin og  jafnast á við áhættu þeirra einstaklinga sem þegar hafa  kransæðasjúkdóm.

Líkindi með áhættu kransæðasjúklinga og sykursjúkra
Meðferð sjúklinga með kransæðasjúkdóm hefur tekið miklum framförum á síðari árum einkum vegna bættrar læknisþjónustu og ákveðnari meðhöndlun áhættuþátta hjartasjúkdóms en einnig vegna  bættrar endurhæfingar, aukinnar fræðslu og bætt lífstíls. Talið er að með því að beita bestu mögulegri meðferð megi draga svo úr líkum á nýju hjartaáfalli hjá kransæðasjúklingum að áhætta þeirra nálgist áhættu þeirra sem ekki hafa þekktan kransæðasjúkdóm. Áhætta sykursjúka á t.d. hjartaáfalli er eins og fyrr segir aukin, en líklegt er að sama gildi um áhættu sykursjúka og kransæðasjúklinga. Með því að meðhöndla áhættuþætti hjartasjúkdóma hjá sykursjúkum á sama hátt og hjá  þeim sem hafa kransæðasjúkdóm má koma áhættunni á að fá t.d. kransæðastíflu niður í það sem almennt gerist. Þessi meðferð kemur til viðbótar meðferð við blóðsykrinum hjá sykursjúkum og er ekki síður mikilvæg.

Kólesteról
En hverjir er áhættuþættirnir og í hverju felst meðferðin?
Hátt kólesteról, reykingar og hár blóðþrýstingur eru helstu áhættuþættir hjartasjúkdóma sem kunnugt er. Með því að auka neyslu grænmetis, minnka neyslu á mettaðri fitu eins og dýrafitu og auka neyslu á ein- og fjölómettaðri fitu eins og í fiski og ólífuolíu má lækka kólesterólið. Svo vill til að þessar ráðleggingar um mataræði passa vel við þær ráðleggingar sem sykursjúkir fá til að bæta blóðsykurstjórnunina. Hjá langflestum sykursjúkum dugar þó ekki bætt mataræði til og því verður að grípa til lyfjameðferðar. Það er jafnvel þó kólesterólið sé ekki hærra en gengur og gerist hjá jafnöldrum af sama kyni. Lyfjameðferðin byggir á lyfjaflokki sem kallast statin. Þessi lyf hafa sannað ágæti sitt í fjölmörgum rannsóknum, einkum hjá sykursjúkum. Markmiðið er að kólesterólið sé ekki hærra en 5,0. Mikil gróska er í rannsóknum á  fleiri gerðum kólesteról lækkandi lyfja og nýlega kom á markað lyf sem dregur úr frásogi kólesteróls úr meltingarvegi. Rannsóknir þurfa þó að leiða í ljós gagnsemi þessara nýju lyfja fyrir sykursjúka.

Blóðþrýstingur
Blóðþrýstingur er oft hækkaður í tegund tvö sykursýki, en mikilvægt er að halda honum í skefjum, því að hár blóðþrýstingur eykur mjög líkur á sjúkdómum af völdum æðakölkunar. Eru þar heilaáföll mest áberandi. Hár blóðþrýstingur hefur auk þess slæm áhrif á smáæðar í nýrum og augum, en sjúkdómar í þessum líffærum eru sem kunnugt er fylgikvillar sykursýki. Blóðþrýstingur á ekki að vera hærri en 130 í efri mörkum og 80 í neðri mörkum og hugleiða ber lyfjameðferð ef blóðþrýstingur er hærri 140/85. Blóðþrýstingur er mjög tengdur líkamsþyngd og hreyfingu. Beint samband er þannig milli líkamsþyngdarstuðuls og blóðþrýstings samkvæmt gögnum Hjartaverndar. Aftur fara saman ráðleggingar til að fá stjórn á blóðþrýstingi og blóðsykurstjórnun. Of lítil virkni insúlíns í líkamanum s.k. insúlin ónæmi er oftast höfuð vandamálið í tegund tvö sykursýki. Með því að reyna á vöðvana og minnka kviðarfitu dregur úr insúlín ónæmi og blóðsykurstjórnun getur batnað. Einmitt sömu þættir hafa áhrif  til lækkunar á blóðþrýstingi. Oft er þó lyfjameðferð nauðsynleg. Fjölmörg lyf eru til við háum blóðþrýstingi og yfirleitt er hægt að finna lyfjameðferð sem hentar hverjum og einum. Lyf af flokki sem kallast ACE hemlar eða Angíótensín II blokkar  hafa þó sannarlega verndandi áhrif á nýrun hjá sykursjúkum og því lyf úr þessum flokkum fyrsta val.

Reykingar
Reykingar eru alvarlegasta heilbrigðisvandamálið á Íslandi og sykursjúkum er enn hættara en öðrum við slæmum áhrifum reykinga. Reykingar hafa slæm áhrif á nær alla sjúkdóma sem þekktir eru að tengjast sykursýki. Versnun á nýrnasjúkdómum, augnsjúkdómum og taugasjúkdómum í fótum hafa verið settir í samband við reykingar. Einnig stórauka reykingar hættu á  æðakölkun og sjúkdómum orsökuðum af henni. Nikótín er eitt mest ávanabindandi efni sem þekkist og því er gríðarlegt átak að losna undan viðjum þess. Mikilvægast er að losna við sjálfan reykinn og sjálfsagt er að nýta þau hjálpartæki sem til eru. Nikótín lyf geta hjálpað sumum og einnig er til lyf sem draga úr  tóbakslönguninni. Mikilvægt er flestum reykingamönnum að leita sér stuðnings t.d. hjá maka/ættingjum, á námskeiðum eða með öðrum hætti þegar hætt er að reykja.

Ekki verður fjallað um sjálfa blóðsykurstjórnunina hún er auðvitað einnig mikilvæg. Lyf við sykursýki sem minnka insúlínónæmi eins og metformín (Glucophage) eða glitazon (Actos og Avandia) minnka sannarlega áhættu á kransæðasjúkdómum. Þótt hér hafi verið fjallað um ýmis lyf sem hægt er að hafa áhrif á áhættu á kransæðasjúkdómi með, má ekki gleyma að næg hreyfing og gott mataræði er áhrifaríkasta og besta vörnin gegn æðakölkun hjá sykursjúkum sem öðrum.

Áhættureiknivél Hjartaverndar
Að lokum er hér dæmi um hvernig hægt er að draga úr líkum á hjartasjúkdómum. Með því að fara á vef Hjartaverndar www.hjarta.is má finna áhættureiknivél Hjartaverndar þar sem þessir útreikningar eru gerðir.

tekið af vef hjartaverndar: www.hjarta.is