Skip to main content

Börn og unglingar með sérþarfir á aldrinum 6-18 ára stendur til boða knattspyrnu- og lífsstílsnámskeið í sumar. Námskeiðin fara fram á íþróttasvæði Víkings í Fossvoginum.

Um er að ræða þrjú 2 vikna námskeið alla virka daga frá kl. 9-12. Fyrsta námskeiðið hefst 28 júni til 9 júlí, annað námskeið er frá 12 júlí til 23 júlí og lokanámskeiðið verður frá 26 júlí til 6 ágúst.
Sjá nánar auglýsingu um námskeiðin hér.

Námskeiðshaldararnir sendu frá sér eftirfarandi bréf varðandi námskeiðið:

Ég heiti Pétur Örn Svansson og hef starfað í Öskjuhlíðarskóla síðastliðið ár. Eftir að hafa fengið að kynnast því hversu mikill áhugi er á fótbolta í skólanum en fá úrræði fyrir þennan markhóp ákvað ég að sækja um styrk hjá Reykjavíkurborg til þess að vera með knattspyrnu- og lífsstílsnámskeið fyrir börn og unglinga með sérþarfir. Þeim leist vel á hugmyndina og mun ég því geta boðið upp á þetta námskeið í sumar. Lögð verður áhersla á að fótbolti er skemmtileg íþrótt sem allir geta stundað, óháð getu. Leikur fyrir alla þar sem allir fá að vera með. Allir geta eitthvað en enginn getur allt. Ég mun einnig vera með fræðslu um heilsusamlegt mataræði sem verður að haldast í hendur við að stunda íþróttir og snyrtimennsku sem fylgir átökunum í leiknum.

Námskeiðið fer fram á íþróttasvæði Víkings í Fossvoginum. Sjálfur er ég leikmaður meistaraflokks Víkings og spila með þeim í 1.deildinni núna í sumar. Með mér verður liðsfélagi minn í Víking, Egill Atlason, sem er mjög hæfur á þessu sviði enda hefur hann mikið unnið með börnum og unglingum bæði í þjálfun og kennslu. Aðstaðan í Víkinni er öll til fyrirmyndar, þar getum við komist inn og borðað nesti og verið með fræðslu og svo er gríðarstórt grasæfingasvæði sem hentar einkar vel fyrir námskeiðið.

Hvert námskeið mun standa yfir í tvær vikur og kosta 6.000 kr. Það verður frá 9-12 fyrir hádegi og miðað er við aldursbilið 6-18 ára en við erum sveigjanlegir með það. Tímabil námskeiða verða 28. júní- 9. júlí; 12. júlí- 23. Júlí og 26. júlí- 6. ágúst. Dagskrá námskeiðsins verður mjög fjölbreytt þar sem þekktir knattspyrnumenn munu koma og taka þátt í æfingum, grillveisla í lok námskeiðs og margt fleira skemmtilegt.

Ég er mjög spenntur fyrir því að fá nemendur úr Öskjuhlíðarskóla því ég hef mikið spilað fótbolta með þeim í frímínútum og finnst það mjög skemmtilegt. Ég er einnig mjög spenntur fyrir því að kynnast öðrum krökkum í þessum markhóp utan Öskjuhlíðarskóla.

Skráning og frekari upplýsingar fara fram í síma 892-3007 (Pétur) eða 615-0307 (Egill). Þið getið líka sent mér tölvupóst á netfangið petursvans@gmail.com