Skip to main content

Mottu-mars hafinn!

„Mottu-mars“ er yfirskrift mánaðarlangs átaks Krabbameinsfélags Íslands um karlmenn og krabbamein sem hófst formlega í dag þegar úrvalslið allra helstu sérsambanda landsins í boltaíþróttum skoruðu á hvert annað í mottukeppni – söfnun yfirvaraskeggs. Ágóða af sölu barmmerkja verður varið til rannsókna, fræðslu, ráðgjafar og stuðnings við krabbameinssjúklinga og aðstandendur þeirra.

Þetta er í þriðja sinn sem Krabbameinsfélagið stendur fyrir sérstöku átaki um karlmenn og krabbamein og verður það jafnframt eitt umfangsmesta árvekniátak félagsins til þessa. Eru karlmenn á Íslandi hvattir til þess að safna yfirvararskeggi í marsmánuði til að sýna samstöðu og safna jafnframt áheitum til styrktar baráttunni gegn krabbameini með því að skrá sig til þátttöku í yfirvararskeggkeppninni á vefsíðunni www.karlmennogkrabbamein.is. Jafnframt fer fram landssöfnun um næstu helgi, nánar til tekið laugardaginn 6. mars, þar sem verða til sölu sérstök barmmerki – mottupinnar – og í lok mánaðarins verður sigurvegari mottukeppninnar valinn við hátíðlega athöfn.

Áskorun – flottasta motta marsmánaðar!
Sérstök heimasíða fyrir árvekniátakið „Mottu-mars“ var opnuð í dag á slóðinni www.karlmennogkrabbamein.is. Þar gefst öllum sem sprettur grön kostur á að skrá sig og vera með í keppninni um flottasta yfirvararskegg marsmánaðar – og safna í leiðinni áheitum til styrktar Krabbameinsfélagi Íslands. Hægt er að skrá bæði einstaklinga og lið og eins og fyrr segir hafa úrvalslið allra helstu sérsambanda landsins í boltaíþróttum skorað á hvert annað í keppni um söfnun áheita og yfirvararskeggs.
Starfsmenn AFL´s munu taka þátt í skeggsöfnuninni og munum við jafnvel setja inn myndir af þáttakendum við tækifæri.
Hættan á krabbameini eykst mjög eftir fertugt og við vildum leggja okkar af mörkum við að vekja athygli á þessum góða málstað,“ segir Aron Kristjánsson, þjálfari nýbakaðra bikarmeistara Hauka í handknattleik. „Krabbamein á ekki að vera feimnismál og viljum við stuðla að því að koma umræðunni um það upp á yfirborðið. Konur hafa löngum verið duglegri en við karlar að ræða þessi mál og koma sér upp sterku stuðningskerfi – eins og sjá má á árangri Bleiku slaufunnar. Krabbamein er hins vegar ekki bundið við kyn og við viljum ekki vera eftirbátar kvenna í þessum efnum enda um líf og heilsu okkar að ræða!“

Minni lífslíkur hjá körlum
Yfir 700 karlar greinast árlega með krabbamein á Íslandi en lífslíkur þeirra eru lakari en hjá íslenskum konum. „Krabbamein hjá körlum eru oft lengra gengin við greiningu en hjá konum en því fyrr sem gripið er til aðgerða gegn sjúkdómnum þeim mun betri eru batahorfur. Því er nauðsynlegt að karlar geri sér grein fyrir helstu einkennum krabbameins og leiti sér læknisaðstoðar verði þeir varir við þau,“ sagði Guðrún Agnarsdóttir, forstjóri Krabbameinsfélagsins við upphaf átaksins í dag.

„Batahorfur þeirra sem greinast með krabbamein hér á landi eru almennt góðar og hafa batnað mjög en brýnt er að greina meinin snemma. Því þurfa allir að þekkja einkennin og leita sér aðstoðar ef þörf er á.“ Forstjóri Krabbameinsfélagsins minnti einnig á mikilvægi forvarna í baráttunni við krabbamein en rannsóknir sýna að hægt er að koma í veg fyrir eitt af hverjum þremur krabbameinstilfellum með því að borða hollan mat, stunda líkamsrækt reglulega, stilla drykkju og sólböðum í hóf og halda sig alveg frá reykingum!

tekið af vef www.krabbi.is