Skip to main content

Hvað hentar börnum best að drekka?

Börn og ungmenni á Íslandi drekka of mikið af sykruðum gos- og svaladrykkjum. Níu ára börn drekka að meðaltali 2,5 lítra af gos- og svaladrykkjum á viku og 15 ára börn tæplega 4 lítra á viku, samkvæmt rannsókn Ingu Þórsdóttur og félaga hjá Rannsóknarstofu í næringarfræði á Landspítalanum.
Tíðni ofþyngdar og offitu meðal barna og unglinga hefur aukist á undanförnum árum auk, þess sem glerungseyðing tanna er vaxandi vandi, samkvæmt niðurstöðum Munnís-rannsóknar. Mikil neysla gosdrykkja og annarra svaladrykkja, að meðtöldum íþrótta- og orkudrykkjum og jafnvel safa, hefur verið tengt við þetta. Því er mikilvægt að foreldrar, og aðrir fullorðnir, staldri við og hugleiði hvað hentar best að gefa börnum að drekka.

Vatn er langbesti svaladrykkurinn fyrir börn

Kalt vatn hentar börnum best til að svala þorsta. Kennum börnunum að drekka vatn við sem flest tækifæri. Aðgengi skiptir hér megin máli. Reynum að hafa það sem reglu að auðvelt sé fyrir börnin að fá sér vatn, hvort sem er með máltíðum eða á milli máltíða. Til viðbótar við kranavatnið er sykurlaust kolsýrt vatn góður valkostur.

Tveir til þrír skammtar af mjólk eða mjólkurvörum á dag

Fullorðnum og börnum frá eins árs aldri er ráðlagt að neyta tveggja glasa, diska eða dósa af mjólk eða mjólkurmat á dag eða þess sem samsvarar 500 ml yfir daginn. Best er að velja fitulitlar og lítið sykraðar vörur nema fyrir börn tveggja ára og yngri sem þurfa heldur fitumeiri vörur. Ostur getur komið í stað mjólkurvara að hluta til.

Hreinn ávaxtasafi ekki nauðsynlegur hluti af hollu mataræði

Fullorðnum og börnum er ráðlagt að borða 5 skammta af grænmeti og ávöxtum á dag. Eitt glas af hreinum ávaxtasafa getur komið í staðinn fyrir einn skammt af ávöxtum á dag. Ekki er ráðlagt að börn drekki meira en sem svarar einu glasi á dag og yngri börn ættu aðeins að fá lítið glas. Hreinn ávaxtasafi er þó ekki nauðsynlegur hluti af hollu mataræði en er þó betri kostur en gos- og svaladrykkir.

Gos- og svaladrykkir einungis til hátíðabrigða

Gos- og svaladrykkir eru óþarfi fyrir börn og veita einungis tómar hitaeiningar, því í sykruðum gos- og svaladrykkjum eru margar hitaeiningar í formi viðbætts sykurs en nær engin næringarefni. Mikil sykurneysla í formi gos- og svaladrykkja getur aukið líkur á ofþyngd og offitu meðal barna auk þess sem sykurinn skemmir tennurnar. Gos- og svaladrykkir innihalda auk þess ávaxtasýrur og rotvarnarsýrur sem geta leyst upp glerung tannanna. Að drekka gos- og svaladrykki, að meðtöldum íþrótta- og orkudrykkjum, oftar en þrisvar sinnum í viku eykur hættu á glerungseyðingu.

Íþrótta- og orkudrykkir henta börnum ekki

Ástæðulaust er að gefa börnum íþróttadrykki, jafnvel þótt þau stundi íþróttir daglega. Mikilvægt er að drekka vatn fyrir æfingu, meðan á henni stendur og á eftir, einnig að borða vel nokkru fyrir æfingu og eftir æfingu.

Orkudrykkir sem innihalda m.a. koffín henta börnum alls ekki. Slíkir drykkir geta valdið vökvaskorti og öðrum óþægindum og eru börn sérstaklega viðkvæm fyrir þessum áhrifum. Því er æskilegt að venja ung börn við að drekka vatn og mjólk sem oftast og ef til vill stöku sinnum hreinan safa.


Tekið af vef www.lydheilsustod.is