Skip to main content

Vítamín eru nauðsynleg fyrir vöxt og viðhald heilbrigðs líkama. Flestir eiga að geta fengið þau næringarefni sem þeir þarfnast með því að borða fjölbreytta fæðu. Undantekning frá þessu er þó D-vítamín, því lítið er af því í fæðunni, og fólat fyrir konur á barneignaaldri, þær gætu þurft að fá fólat aukalega úr töflum. Þrátt fyrir að næringarefnin séu nær öll í matnum neyta margir fæðubótarefna og mikilvægt er fyrir þá að vita að of stórir skammtar geta skaðað. Þeir sem ákveða að taka inn fæðubótarefni þurfa því að þekkja kosti og galla þessara efna.

Hvað eru vítamín?
Vítamín eru næringarefni sem líkaminn þarfnast í litlu magni fyrir eðlilega líkamsstarfsemi. Vítamínum má skipta í tvo flokka: fituleysanleg og vatnsleysanleg.

Fituleysanleg vítamín eru aðallega í feitum matvælum, eins og dýrafitu, jurtaolíu, mjólkurvörum, lifur og feitum fiski.

Ef borðað er umfram þörf af fituleysanlegum vítamínum safnast þau fyrir í líkamanum, einkum í lifur og fituvef, og líkaminn getur nýtt þau síðar. Þetta skýrir hvers vegna líkaminn kemst af án þess að neyta fituleysanlegu vítamínanna daglega þótt hann þarfnist þeirra á hverjum degi til að starfa eðlilega. Þess vegna getur verið ágætt að hafa smábirgðir í líkamanum en ef of mikið safnast upp getur það valdið skaða. Það má því segja að það sé bæði jákvætt og neikvætt að umframmagn fituleysanlegra vítamína skuli safnast upp í líkamanum.

Eftirtalin vítamín eru fituleysanleg:
A-vítamín (retínól, beta-karótín)
D-vítamín (kalsíferól)
E-vítamín (tókóferól)
K-vítamín

Vatnsleysanleg vítamín varðveitast ekki í líkamanum og því þarf að neyta þeirra oftar en þeirra fituleysanlegu.

Ef líkaminn fær stærri skammta af vatnsleysanlegum vítamínum en hann þarf á að halda losar hann sig við umframmagn með þvagi. Þar sem líkaminn geymir ekki vatnsleysanleg vítamín eru þessi vítamín almennt ekki skaðleg.

Vatnsleysanleg vítamín er að finna í ávöxtum, grænmeti og korni. Öfugt við fituleysanlegu vítamínin geta þau eyðilagst við hitun eða við það að komast í snertingu við súrefni andrúmsloftsins. Einnig geta þau tapast við suðu.

Þetta þýðir að við eldun, sérstaklega suðu, tapast töluvert af þessum vítamínum úr fæðunni. Besta leiðin til að varðveita vatnsleysanlegu vítamínin er því að gufusjóða eða grilla.

Eftirtalin vítamín eru vatnsleysanleg:
Þíamín (B1-vítamín)
Ríbóflavín (B2-vítamín)
Níasín (B3-vítamín)
Pýridoxín (B6-vítamín)
Kóbalamín (B12-vítamín)
Fólat (fólínsýra/fólasín)
C-vítamín (askorbínsýra)
Bíótín

Pantóþensýra

Hvað eru ráðlagðir dagskammtar?
Ráðlagðir dagskammtar (RDS) er það magn nauðsynlegra vítamína og steinefna sem talið er fullnægja þörfum alls þorra heilbrigðs fólks. Þarfir fólks fyrir næringarefni eru mjög breytilegar og því geta RDS ekki sagt um einstaklingsbundnar þarfir.

Hvað gerist ef ekki er neytt nægilegs magns af vítamínum og steinefnum?
Vítamín og steinefni hafa ákveðnum hlutverkum að gegna í líkamanum. Í kjölfar of lítillar neyslu geta fyrst komið fram skortseinkenni en síðar skortssjúkdómar eða hörgulsjúkdómar ef ástandið er langvinnt. Sem dæmi má nefna að skortur á C-vítamíni lýsir sér sem þreyta og minna mótstöðuafl. Ef ekkert er að gert getur komið fram skortssjúkdómurinn skyrbjúgur sem er lífshættulegur sjúkdómur. Skortssjúkdómar eru afar sjaldgæfir í hinum vestræna heimi.

Hámarksskammtar vítamína og steinefna
Mikil neysla á sumum næringarefnum getur haft neikvæð áhrif á heilsuna og jafnvel eitrunaráhrif. Því hafa verið sett gildi fyrir efri mörk neyslu (tolerable upper intake level) þessara næringarefna, þ.e. hámark á dag. Efri mörkin miðast við það magn sem óhætt er að neyta daglega í langan tíma án þess að það sé talið hafa neikvæð áhrif á heilsuna. Tölurnar um efri mörk eru fyrst og fremst miðaðar við heilbrigða fullorðna einstaklinga.

tekið af vef www.lydheilsustod.is