Skip to main content

Kyrrseta er eitt helsta heilbrigðisvandamál iðnríkja í dag, þar sem hægt er að tengja hana við ýmsa lífsstílssjúkdóma. Samhliða aukinni kyrrsetu eru ofþyngd og offita vaxandi alheimsvandamál og fara Íslendingar ekki varhluta af því. Á milli 17 og 22% níu og 15 ára íslenskra barna eru yfir kjörþyngd en nýjustu kannanir sýna samt að heldur dragi úr ofþyngd/offitu í þessum aldurshópi. Mun hærra hlutfall (53-65%) íslenskra karla og kvenna eru yfir kjörþyngd og hefur farið mjög fjölgandi í þessum hópi síðan 1990. Rannsóknir hafa auk þess sýnt að offita á unglingsárunum eykur dánartíðni meira en ofþyngd á fullorðinsárum og að unga kynslóðin í dag verður líklega sú fyrsta sem mun hafa styttri lífslíkur en fyrri kynslóðir vegna sívaxandi tíðni offitutengdra sjúkdóma. Þessi aukna kyrrseta og líkamsfita ýta undir algengustu orsakir ótímabærs heilsubrests og dauðsfalla á Vesturlöndum, svo sem hjarta- og æðasjúkdóma, háþrýsting, sykursýki af tegund tvö og krabbamein. Aftur á móti hefur mikil hreyfing, gott úthald og minni líkamsfita verið tengd betra heilsufari barna og unglinga.

Þrátt fyrir að nokkuð hafi verið birt af rannsóknum um líkamsástand íslenskra barna hefur lítið sem ekkert verið birt um líkamsástand ungmenna á framhaldsskólaaldri. Nokkrar meistara- eða BS-ritgerðir finnast, en það litla sem hefur verið birt í ritrýndum tímaritum hefur verið byggt á spurningalistakönnunum en ekki beinum hlutlægum mælingum á holdafari, úthaldi, hreyfingu og áhættuþáttum efnaskiptasjúkdóma í blóði. Hugsanlega er það vegna þess að oft er erfitt að fá þennan aldurshóp til þátttöku, enda mikið um að vera og margar breytingar í lífi þeirra á þessum aldri.

Tilgangur rannsóknarinnar var að kanna líkamlega heilsu 18 ára framhaldsskólanema með því að mæla alla helstu áhættuþætti fyrir lífsstílssjúkdóma, svo sem holdafar, úthald, hreyfingu, blóðþrýsting, blóðfitu og blóðsykur og setja fram tölur um hversu margir í þessum hópi væru yfir hættumörkum hvað varðar þessa þætti. Undirmarkmið var að bera saman líkamlega heilsu bóknáms- og verknámsnemenda.

Ýtið hér til að lesa alla greinina sem birtist í Læknablaðinu 5tlb 2012

tekið af vef læknablaðsins www.laeknabladid.is