Hálshnykkur verður þegar höfuðið kastast fram, aftur eða til hliðar með tilheyrandi álagi á hálshrygginn. Hálshnykkur getur orðið með ýmsum hætti s.s. við fall eða íþróttaiðkun en oft verður hann við bílslys, sérstaklega aftaná keyrslu. Við aftaná keyrslu er algengt að svo kallaður „whiplash“ hnykkur eigi sér stað, en við höggið kastast höfuðið fyrst aftur (hyperextension) og svo fram (hyperflexion) á töluverðum hraða.
Hálsknykkir eru mis alvarlegir og ræður höggþungi og hraði m.a. þar um. Í sumum tilfellum upplifir fólk tímabundin minniháttar óþægindi sem lagast af sjálfu sér. Í öðrum tilfellum kann hnykkurinn að hafa valdið áverka á bein, vöðva, hryggþófa, liðbönd eða sinar með tilheyrandi verkjum og óþægindum.
Alltaf skal hafa í huga að fólk getur hlotið heilahristing eða aðra höfuðáverka við hálshnykk og því er mikilvægt að leita strax á slysamóttöku og fá álit læknis.
Verkir geta komið fram strax við áverka eða eftir einhverja klukkutíma/daga/vikur. Ef afleyðingar hálshnykks hverfa ekki fljótlega er fólki ráðlagt að leita aftur til læknis eða hitta sjúkraþjálfara.
Afleyðingar hálshnykks geta m.a. verið:• Verkir, eymsli og stífleiki í hálsi • Höfuðverkir• Verkir í öxl/handlegg/fingrum• Dofi í hálsi/öxl/handlegg/fingrum• Skert hreyfigeta í hálsi• Svimi
Meðhöndlun hálshnykks felst m.a. í fræðslu, æfingum og verkjameðferð. Mikilvægt er að halda góðri stöðu á hálsi og passa líkamsbeitingu. Fara þarf yfir vinnuaðstöðu og draga úr álagi þar sem það er hægt. Passa þarf upp á stöðu á hálsi þegar lagst er til hvílu og því skiptir góður koddi miklu. Einnig finnst mörgum gott að hafa auka kodda í fanginu þegar legið er á hlið og hvíla þannig handlegginn á koddanum. Mikilvægt er að forðast allt tog á axlagrindina s.s. að halda á þungum innkaupapokum, töskum eða öðru. Gott er að létta undir olnbogum með því að nota stólarma eða púða undir olnboga þegar setið er. Með því má draga úr togi á hálsinn og minnka álag.