FORSETI Íslands veitti í gær verkefninu Gönguhermi Nýsköpunarverðlaun forseta Íslands 2009. Gönguhermirinn er samstarfsverkefni verkfræðideildar og sjúkraþjálfunarskorar Háskóla Íslands.
„VIÐ vorum þrír nemar við Háskóla Íslands sem unnum saman að þessu verkefni í sumar; ég, Bjarki Már Elíasson vélaverkfræðinemi og Andri Yngvason nemi í rafmagns- og tölvuverkfræði,“ segir Jóna Guðný Arthúrsdóttir sem útskrifaðist síðastliðið vor sem sjúkraþjálfari og vinnur núna sem slíkur á Æfingastöð Styrktarfélags lamaðra og fatlaðra.
Hugmyndin að verkefninu kviknaði hjá Þjóðbjörgu Guðjónsdóttur barnasjúkraþjálfara og lektor við Háskóla Íslands, í starfi hennar með hreyfihömluðum börnum og ungmennum. Hún ásamt Karli S. Guðmundssyni og Fjólu Jónsdóttur, dósentum við verkfræðisvið Háskóla Íslands, óskaði eftir nemendum í þetta verkefni og við gáfum kost á okkur. Verkefnið gekk út á hugmyndavinnu að sérhönnuðu tæki, svokölluðum Stride Simulator eða gönguhermi, sem ætlaður er fyrir alvarlega hreyfihömluð börn.
Hreyfiþjálfun skiptir miklu
Jóna Guðný segir tækið vera hugsað þannig að börnin séu fest í það, þannig að þau standi upprétt, og svo framkallar tækið ákveðna hreyfingu á fótum þeirra, hreyfingu sem líkir eftir eðlilegri göngu. „Þau börn sem gönguhermirinn er hugsaður fyrir eru alveg bundin í hjólastól og fá því litla sem enga hreyfingu dagsdaglega. Sú hreyfiþjálfun sem hermirinn myndi veita, gæti skipt miklu máli til að auka beinþéttni barnanna sem iðulega er mjög lítil, auka þroska mjaðmaliða og bæta blóðflæði svo eitthvað sé nefnt. Hugmyndin er sú að börnin geti haft tækið á leikskólanum, í grunnskólanum eða jafnvel heima hjá sér, þannig að hægt sé að flétta notkun þess inn í daglegt líf barnanna.“ Jóna Guðný bætir við að tæki sem þetta hafi ekki verið til á markaðnum til þessa og hún voni að í framhaldinu verði hægt að koma því í framleiðslu.
Jóna Guðný segir starf sjúkraþjálfara vera mjög skemmtilegt og gefandi. Hún stefnir á framhaldsnám og segir ekki ólíklegt að það muni tengjast sjúkraþjálfun barna.
tekið af vef mbl.is þ.17.02.2008