Skip to main content

Niðurstöður fyrstu rannsóknarinnar á árangri afnæmismeðferðar á Íslandi hafa nú verið birtar. Niðurstöðurnar sýna með óyggjandi hætti að afnæmismeðferð skilar miklum árangri hér á landi.

„Við skoðuðum hver árangurinn af afnæmismeðferðinni væri og eins hvort við fyndum einhverja þætti sem segðu til um það hvort fólk svaraði meðferðinni vel eða illa,“ segir Björn Rúnar Lúðvíksson yfirlæknir á ónæmisfræðideild, sem birti nýverið niðurstöður úr fyrstu íslensku rannsókninni á árangri afnæmismeðferðar ásamt Davíð Gíslasyni yfirlækni, Guðmundi H. Jörgensen lækni, Yrsu B. Löve lækni og Sverri Gauta Ríkarðssyni læknanema.

„Það sem kom okkur á óvart voru þeir þættir sem höfðu áhrif á árangurinn af meðferðinni,“ segir Björn Rúnar og útskýrir það: „Karlar urðu oftar einkennalausir
heldur en konur og ef það var sterk ættarsaga um ofnæmi í fjölskyldunni var fólk líklegra til að svara meðferðinni vel. Hugsanlega getur það þá verið með hreinna form af sjúkdómnum.“

Markmið afnæmismeðferðar er að minnka áhrif ofnæmis. Að sögn Björns Rúnars hefur afnæmismeðferð verið stunduð á Íslandi frá því um miðjan áttunda áratug síðustu aldar og er sjónum beint að nánast öllu því tímabili í rannsókninni. „Við getum afnæmt gegn flestum hlutum sem fólk andar að sér.“

Rannsóknartímabilið náði yfir árin 1977 til 2006. Haft var samband við 169 manns vegna rannsóknarinnar og 76 prósent þeirra samþykktu þátttöku en 289 manns gengust undir meðferðina á tímabilinu. Þeir svöruðu ítarlegum spurningalista um árangurinn og aukaverkanir og einnig var framkvæmt húðpróf. Þátttakendurnir í rannsókninni voru afnæmdir gegn vallarfoxgrasi, birki, köttum og rykmaurum og reyndust 67 prósent verða einkennalaus eða betri.

„Við vitum að afnæming gegn frjókornum og rykmaurum er langáhrifaríkust. Hún virkar
síður gegn dýrum.“ Björn Rúnar segir fáar rannsóknir státa af jafn löngu rannsóknartímabili. „Menn hafa ekki verið fullvissir um hversu lengi áhrif afnæmingarinnar vara. Rannsóknir hafa sýnt fram á að áhrifanna gætir enn eftir fimm til tíu ár en við sýnum að tuttugu til þrjátíu árum frá afnæmingunni er enn þá mjög góður árangur og jafnvel eru einkennin orðin enn minni heldur en hjá þeim sem luku meðferð fyrir fimm eða tíu árum,“
segir Björn Rúnar en setur þó þann fyrirvara að almenna reglan sé að ofnæmiseinkenni minnki með aldrinum.

„Engu að síður sýna niðurstöður rannsóknarinnar með óyggjandi hætti að meðferðin er að skila miklum árangri,“ upplýsir Björn Rúnar sem segir það mikilvægt vegna þess að 25 til 30 prósent Íslendinga þjáist af einhvers konar ofnæmi

grein úr Fréttablaðinu 13.júlí 2010 www.frettabladid.is