Áhættuþættir beinþynningar:
1. Kyn: Konur eru í þrefalt meiri hættu á að fá beinþynningu en karlar. Það er m.a. vegna þess að hámarks beinþéttni kvenna er minni en karla og eftir tíðarhvörf eykst niðurbot beina til muna hjá konum. Þær þurfa því að huga sérstaklega að mataræði sínu og hreyfingu. Konur sem fara snemma í tíðarhvörf eru í aukinni hættu, svo og konur sem gengist hafa undir legnám.
2. Aldur: Bein gisna með aldrinum, kvenna mun meira en karla. Beinþynning hefst oft hjá konum eftir tíðahvörf og er beintapið oft mikið fyrsta áratuginn eftir. Eftir sjötugt er beintapið svipað hjá körlum og konum.
3. Erfðir: Líklegt er talið að hámarksbeinstyrkur sem næst, sé að hluta til bundinn erfðum og hugsanlega stjórna erfðir einnig beintapi. Þessi erfðaþáttur er m.a. skýringin á því, að hafi móðir eða faðir fengið beinþynningu, eykur það líkur á að afkomandi fái sjúkdóminn.
4. Lífsstíll/umhverfi: Beinin þarfnast bæði næringar og áreynslu til að haldast sterk og heilbrigð.
* Næring. Næring skiptir máli fyrir heilbrigði beina á öllum aldri. Þess vegna er heilbrigt mataræði mikilvægt. Ýmsar kalkríkar fæðutegundir t.d. mjólk og mjólkurvörur innihalda þau næringarefni sem eru hvað mikilvægust fyrir beinin. D-vítamín er nauðsynlegt til að kalkið nýtist beinunum. Við fáum D-vítamín úr fæðutegundum eins og lýsi.
* Líkamsþyngd/undirþyngd. Konur sem ekki hafa hafa ekki náð að byggja um nægilega mikinn beinmassa eru í meiri hættu á að fá beinþynningu og einnig þær konur sem eru smábeinóttar. Farsælast er að byggja upp beinforða sinn í uppvextinum, allt til þrítugs, og taka síðan upp þráðinn á ný á efri árum.
* Hreyfingarleysi. Sýnt þykir að hæfileg hreyfing hefur góð áhrif á öllum aldri, ekki síst meðal eldra fólks. Öll líkamshreyfing og þjálfun virðist vera til góðs en göngur og hreyfing sem felur í sér þungaburð er áhrifaríkast í baráttunni við beinþynninguna. Mikilvægt er að þjálfunin sé reglubundin a.m.k. þrisvar sinnum í viku 15-30 mínútur í senn. Öll hreyfing er betri en engin. Einstaklingur sem hefur þegar hlotið beinbrot eða samfall á hryggjarlið vegna beinþynningar ætti þó ekki að gera æfingar nema í samráði við lækni og sjúkraþjálfara því mikilvægt er að æfingarnar séu rétt framkvæmdar og án álags á þá líkamsstaði sem eru veilir.
* Reykingar. Reykingar stuðla að beinþynningu.
* Áfengi. Áfengisneysla í óhófi eykur hættu á beinþynningu.
* Sjúkdómar: Sjúkdómar sem hafa áhrif á kalkbúskapinn geta valdið beinþynningu. Þeir eru: ofstarfsemi skjaldkirtils, liðagigt, dreifðir illkynja sjúkdómar í beinagrind eða langvinnir meltingar- eða lifrarsjúkdómar.
* Lyf: Eftirtalin lyf eru talin geta valdið beinþynningu.
1. Sykursterar, t.d. prednisolon, notað við asthma og bólgusjúkdómum.
2. Flogaveikilyf.
3. Ofskömmtun á skjaldkirtilshormónum
Tekið af vef beinverndar, sjá nánar á www.beinvernd.is