Konur með psoriasis eiga frekar á hættu en aðrar konur að fá sykursýki og háan blóðþrýsting, samkvæmt nýrri rannsókn sem sérfræðingar hjá Harvard Medical School hafa unnið. Telja þeir að þroti sem fylgir Psoriasis sárum á húð beri ábyrgð á þessum fylgikvillum.
Talið er að 3% mannkynsins sé með psoriasissjúkdóminn en hann má rekja til offjölgunar húðfruma sem valda hreistri á húð.
Rannsóknin náði til 78 þúsund kvenna í hjúkrunarstétt sem voru lausar við sykursýki og háan blóðþrýsting þegar rannsóknin hófst fyrir fjórtán árum.
Konur með psoriasis voru 635 líklegri til þess að fá sykursýki og 17% líklegri til þess að fá háan blóðþrýsting heldur en konur sem ekki voru með psoriasis.
Er þetta niðurstaðan þrátt fyrir að tekið var tillit til þátta sem geta haft áhrif eins og aldur, líkamsfitustuðull og reykingar, að því er segir á vef BBC.
Á vef SPOEX, samtaka psoriasis og exemsjúklinga, kemur fram að í psoriasissjúkdómnum sést óeðlileg þroskun og of hröð frumuskipting í frumum yfirhúðar sem líklega stafar af breyttum eiginleikum varðandi vöxt og þroska þessara fruma. Í psoriasisútbrotum er einnig íferð bólgufruma sem sennilega skýrist af því að frumur yfirhúðar losa frumboðefni og önnur efni sem hafa áhrif á ónæmis og bólgusvörun
Ýmsar kenningar eru á lofti til að reyna að skýra þetta. Á seinni árum hafa menn helst aðhyllst að um sé að ræða eins konar ónæmissvörun sem síðan leiði til sjálfsónæmis og mismunandi ytri þættir geti kallað sjúkdóminn fram. Þeir sem ekki verða fyrir slíku áreiti fá ekki alltaf sjúkdóminn jafnvel þó að þeir hafi erft psoriasis tilhneiginguna. Hálsbólgusýking getur m.a. kallað fram psoriasissjúkdóminn og sennilega er um fleiri þætti að ræða.
Ekki hefur með öryggi tekist að sýna fram á hvernig sjúkdómurinn erfist. Nýlegar rannsóknir á genum benda þó til fjölþátta erfða og líklegt er að genin sem valda psoriasis verði brátt fundin. Ef annað foreldranna hefur psoriasis eru 15% líkur á að barn fái psoriasis. Ef báðir foreldrar hafa psoriasis eru líkurnar hinsvegar 50%.
Sjá nánari upplýsingar um sjúkdóminn
tekið af vef www.mbl.is
Tækni & vísindi | mbl.is | 21.4.2009 | 16:01