Beinþynning

Forsíða » Fræðsla » Öldrun » Beinþynning

Beinþynning einkennist af minnkuðum beinmassa ásamt röskun á eðlilegri beinuppbyggingu. Þegar talað er um beinþynningarbrot er átt við beinbrot sem verður af völdum áverka sem nægir ekki til að brjóta heilbrigt bein.

Áætlað er að rekja megi 1000-1200 beinbrot á Íslandi til beinþynningar og eru úlnliðsbrot og samfallsbrot í hrygg algengust en mjaðmarbrot, sem eru alvarlegust, eru um 200 árlega og mun þeim að óbreyttu fjölga verulega með hlutfallslegri öldrun þjóðarinnar. Færni og lífsgæði margra minnka verulega í kjölfar beinbrota með aukinni þörf á aðstoð og eru þá ótaldar aðrar afleiðingar eins og verri heilsa og verkir.

Beinþynning er einkennalaus þangað til bein brotnar. Þess vegna er mikilvægt að finna þá einstaklinga sem eru í mestri áhættu svo hægt sé að beita forvörnum og meðferð. Hætta á frekari brotum er mest hjá einstaklingum sem hafa hlotið eitt eða fleiri brot við lítinn áverka.

Áhættuþættir fyrir brot

Óbreytanlegir áhættuþættir:

* Hækkandi aldur
* Ættarsaga um beinþynningu (foreldrar)
* Kyn (konur eru í meiri áhættu en karlar)
* Hvítur kynstofn
* Ótímabær tíðahvörf

 

Helstu áhættuþættir sem hægt er að hafa áhrif á:

* Grannt holdafar
* Kalk- og/eða D-vítamínskortur
* Reykingar
* Hreyfingaleysi
* Lækkuð beinþéttni við beinþéttnimælingu

Greining

Besta leiðin til að greina beinþynningu er svonefnd DEXA-aðferð sem mælir beinþéttni. Helstu kostir DEXA eru stuttur rannsóknartími, nákvæmni og lítil geislun. Í leiðbeiningunum er ekki sérstaklega er mælt með ómskoðun af hæl til að greina beinþynningu né til að fylgjast með árangri meðferðar. Þó getur mælingin komið að gagni til að staðfesta góðan beinhag hjá eldri konum.

Hvenær á að mæla beinþéttni?

* Áhættuþættir beinþynningar til staðar.
* Beinbrot við lítinn áverka eða þegar röntgenmynd vekur grun um beinþynningu.
* Sjúklingar sem settir eru á sykursterameðferð.
* Þegar meta þarf árangur meðferðar á beinþynningu.

Forvarnir

Hollt mataræði með nægilegu D-vítamíni og kalki. Hreyfing til að styrkja bein og styrkjandi æfingar og jafnvægisþjálfun til að forða byltum. Þeir sem reykja ættu að hætta því.

 

 

 www.landlaeknir.is                                     
Aðalsteinn Guðmundsson,læknir
Anna Björg Aradóttir, hjúkrunarfræðingur