Innanverð liðbandameiðsli í ökkla

Forsíða » Fræðsla » Íþróttameiðsli » Ökklameiðsli » Innanverð liðbandameiðsli í ökkla (Ruptura Traumatica Ligamenti Medialis Pedis)

Orsakir

Ökklameiðsli eru ein algengustu íþróttameiðslin nú til dags. Oftast verða liðbandameiðslin utanvert á ökklanum vegna beinabyggingar ökklans en tognun innanvert á ökkla er mun sjaldgæfari. Tognun innanvert á ökkla verður þegar ökklaliðurinn snýst út á við þannig að ilin vísar út á við t.d. þegar knattspyrnumaður er tæklaður í ökklann innanfrá eða þegar íþróttamaður er að taka hraða stefnubreytingu í hlaupi og  misstígur sig inn á við.
Liðbanda áverkum er hægt að skipta í 3 flokka eftir alvarleika meiðslanna:

1° Oftast talað um tognun, þar sem aðeins nokkrir þræðir í liðbandi verða fyrir skemmdum.
 Hér er liðbandið að hluta til slitið og mun fleiri þræðir í liðbandinu hafa orðið fyrir skemmdum.
 Hér er liðbandið alveg slitið.

Við innanverða tognun á ökkla geta fylgt önnur vandamál sem oft yfirsjást við skoðun, t.d. sinaskaðar á sinum í kring, beinbrot, beinmar, brjóskskaði, vökvi í liðnum eða gigt. Þess vegna er mikilvægt að láta lækni og/eða sjúkraþjálfara skoða ökklann og meta alvarleika meiðslanna.

Einkenni

Verkir innanvert á ökklanum undir kúlunni (malleolus medialis). Bólga vegna blæðingar og verkir þegar stigið er í fótinn. Einkenni verða oft meiri eftir því sem meiðslin eru alvarlegri.

Bráðameðferð

Mikilvægt er að þekkja rétt viðbrögð við íþróttameiðslum – RICE meðferðin. Meðferðina á að byrja sem allra fyrst eftir meiðsli. Ef RICE meðferðinni er beitt rétt frá byrjun, þá minnkar bæði blæðingin og bólgan, örvefsmyndun verður minni og það minnkar líkurnar á langvarandi óþægindum. Einnig styttir það endurhæfingartímann og viðkomandi nær fyrr bata.

Skoðun

Hafðu samband við sjúkraþjálfara eða lækni til að fá rétta greiningu og meðferð við ökklatognunum.
Við 1° tognun er ekki mikil bólga og engin óþægindi að stíga í fótinn, það er því ekki nauðsynlegt að leita sér sérfræðiaðstoðar. Bólgan segir þó ekki alltaf til um alvarleika meiðslanna.
Ef um mikla bólgu og/eða verki er að ræða er nauðsynlegt að leita til sjúkraþjálfara eða læknis til frekari skoðunar. Sé einhver grunur um beinbrot skal tekin röntgenmynd eða segulómun af fætinum

Meðferð og endurhæfing

Eftir bráðameðferðina (48 tíma) getur endurhæfing hafist. Hafðu samband við sjúkraþjálfara eða lækni sem metur alvarleika meiðslanna. Eftir skoðun er sett upp endurhæfingaprógram, í samvinnu við hinn slasaða, svo viðkomandi geti sem fyrst náð sér af meiðslum sínum.
Við minni tognanir (1°og 2°), ef rétt hefur verið staðið að málum frá byrjun, ætti íþróttaiðkandinn að geta hafið æfingar aftur eftir 8-10 daga. Þá er nauðsynlegt að hafa ökklastuðning (td teip, ökklaspelkur).
Mikilvægt er að halda áfram endurhæfingunni þrátt fyrir að íþróttaiðkandinn sé farinn að æfa og finnist hann vera alheill af meiðslum sínum. Það tekur liðbönd 6 mánuði að ná fullum styrk aftur og því mikilvægt að halda áfram með æfingaprógrammið þann tíma. Æfingar á ökklabretti eru mikilvægar bæði í endurhæfingunni og eins sem fyrirbyggjandi aðgerð. Æfingar á ökklabretti ættu að vera fastur liður í æfingaprógrammi hjá þeim sem hafa orðið fyrir liðbandameiðslum í ökkla.

Ef rétt er staðið að bráðameðferð og endurhæfingu hjá sjúkraþjálfara er mjög sjaldgæft að ökklin nái sér ekki og verði til langframa óstöðugur. Ef ökkli er mjög óstöðugur eftir að endurhæfing hefur verið fullreynd, þá er hægt að strekkja liðböndin með skurðaðgerð.

Hér má sjá hugmyndir að stöðuleikaþjálfun fyrir ökkla

 

Efni á aflid.is er aðeins ætlað til fræðslu og upplýsingar. Upplýsingar á aflid.is eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar sjúkraþjálfara, lækna eða annars fagfólks.