Kálfatognun

Forsíða » Fræðsla » Íþróttameiðsli » Leggir » Kálfatognun

Orsakir

Kálfinn samanstendur af þremur vöðvum.  Gastrocnemius sem er stóri aðalvöðvinn, soleus sem er undir gastrocnemius og af plantaris sem er smávöðvi uppi við hnésbót.  Kálfatognanir eru algengar í íþróttum og er nafnið dregið af því að yfirleitt yfirteygist vöðvinn af miklum krafti útf yrir eðlileg mörk hans og þræðir í vöðvanum slitna.  Algengast er að togna á mótum sinar og vöðvavefs, að innanverðu, því þar er kálfinn veikastur fyrir.  Vöðvatognunum er skipt í þrjá flokka eftir alvarleika þeirra:

 

Fyrstu gráðu tognunSkemmd í nokkrum vöðvaþráðum
Annarrar gráðu tognunSkemmd í mörgum vöðvaþráðum
Þriðju gráðu tognunVöðvinn er alveg rifinn

 

 

Einkenni

Þegar um fyrstu gráðu tognun er að ræða eru oft engin einkenni fyrr en eftir æfinguna.  Það getur verið krampi, stífleiki eða smá verkur við teygju eða vöðvasamdrátt.

Þegar annarrar gráðu tognun verður finnur fólk strax fyrir verk sem versnar við teygju eða vöðvasamdrátt.  Oftast er svæðið snertiaumt.  Eftir nokkra daga kemur yfirleitt fram mar vegna blæðinga í vefjunum.

Þriðju gráðu kálfatognun er alvarleg meiðsli.  Fólk finnur fyrir brunatilfinningu eða eins og það hafi verið stungið í kálfann og stundum finnur það fyrir smelli þegar tognunin verður.  Það er erfitt að ganga án verkja.  Vöðvinn er alveg rifinn og stundum er hægt að sjá vöðvann dragast saman í kúlu fyrir ofan holu þar sem rifan er. Eftir nokkra daga kemur fram mar vegna mikilla blæðinga í vefjunum.

Bráðameðferð

Mikilvægt er að þekkja rétt viðbrögð við íþróttameiðslum (RICE meðferðin). Meðferðina á að byrja sem allra fyrst eftir meiðsli. Ef RICE meðferðinni er beitt rétt frá byrjun, þá minnkar bæði blæðingin og bólgan, örvefsmyndun verður minni og það minnkar líkurnar á langvarandi óþægindum. Einnig styttir það endurhæfingartímann og viðkomandi nær fyrr bata.

Skoðun

Oftast nægir skoðun hjá lækni eða sjúkraþjálfara til að greina kálfatognun.  Ef vafi leikur á greiningunni er hægt að gera ómskoðun á kálfanum og skoða hvað er að, það er sjaldnast þörf á þessari rannsókn.

Meðferð

Það er skynsamlegt að hvíla sig frá sportinu þegar kálfinn hefur tognað, en það reynist oft íþróttafólki erfitt að hvíla.  Það þarf ekki mikið að gerast til þess að gera meiðslin enn verri en þau eru og fyrstu gráðu tognun breytist þá í aðra gráðu og önnur gráða breytist í þriðju gráðu tognun.  Þumalputtareglan um hversu lengi þarf að hvíla eftir kálfatognun er:

Fyrstu gráðu tognunu.þ.b. 3 vikur
Annarrar gráðu tognunu.þ.b. 4-6 vikur
Þriðju gráðu tognunu.þ.b. 12 vikur, hugsanlegar þarf aðgerð

 

 

 

 

Bólgueyðandi lyf minnka bólgu og verki.  Teygjusokkur eða teygjubindi hjálpa til við að minnka bólgu og auðvelda að ganga verkjalaust.  Ef um mikla verki er að ræða þarf að ganga við hækjur til að hlífa kálfanum og flýta fyrir bata. Gott er að vera með upphækkun (gelhælar) í hælum til að minnka álag á kálfann.

Sjúkraþjálfun flýtir fyrir bata.  Í fyrstu er vefurinn meðhöndlaður til að flýta fyrir gróanda og  léttar æfingar gegn mótstöðu gerðar.  Eftir því sem vöðvinn verður sterkari er hægt að auka álagið, t.d. með æfingateygjum og með breytingum í endurtekningum og ákefð æfinga.  Yfirleitt er hægt að skokka eftir viku þegar um fyrstu gráðu tognun er að ræða og fullt álag eins og sprettir eiga að vera mögulegir eftir þrjár vikur.  Fáðu leiðbeiningar hjá sjúkraþjálfaranum þínum um æfingar sem henta þér.