Skip to main content

Offita og hreyfingaleysi barna á Íslandi er áhyggjuefni. Í því sambandi langar okkur að birta nokkrar niðurstöður úr lokaritgerð þeirra Hrefnu Þ. Hákonardóttur og Jónu G. Arthúsrdóttur sjúkraþjálfunarnema á 4.ári í Háskóla Íslands.
Markmið rannsóknarinnar var að kanna hvort breytingar verða á hreyfivenjum, íþróttaþátttöku, mataræði og líkamsþyngdarstuðli þegar unglingar fara úr 10. bekk grunnskóla yfir í 1. bekk menntaskóla.
Skv. þessari könnun þá virðast unglingar sem fara úr 10. bekk og í 1.bekk framhaldsskóla; hreyfa sig minna eftir að þau koma í framhaldsskóla , borða meiri skyndibitamat, stelpurnar fara í megrun og líkamsþyngdarstuðullinn (Body Max Index) helst óbreyttur milli árganga.
Úrdráttur úr rannsókn þessari:

Markmið:
Markmið rannsóknarinnar var að kanna hvort breytingar verða á hreyfivenjum, íþróttaþátttöku, mataræði og líkamsþyngdarstuðli þegar unglingar fara úr 10. bekk grunnskóla yfir í 1. bekk menntaskóla.

Aðferð:
Þátttakendur komu úr 5 grunnskólum og 5 menntaskólum á höfuðborgarsvæðinu en alls tóku 262 nemendur í 10. bekk og 299 nemendur í 1. bekk þátt í rannsókninni. Auk þess að svara spurningalista um hreyfivenjur, íþróttaþátttöku og mataræði var hæð og þyngd þátttakenda mæld og líkamsþyngdarstuðull þeirra reiknaður.

Niðurstöður:
Stúlkur í 10. bekk tóku marktækt oftar í viku þátt í og vörðu marktækt fleiri klst á líkamsþjálfun og íþróttir en stúlkur í 1. bekk. Þá hreyfðu marktækt færri stúlkur í 1. bekk en 10. bekk sig í 1 klst daglega af miðlungs eða mikilli ákefð. Ekki komu fram marktækar breytingar milli ára hjá strákum. Marktæk breyting varð á aðalástæðum sem stelpur gáfu fyrir líkamsþjálfun á þessum árum. Meirihluti stelpna í 1. bekk hreyfði sig til að halda sér í formi eða megra sig og voru marktækt fleiri stelpur í 1. bekk í megrun þegar könnunin var lögð fyrir. Athugun á kyrrsetuathöfnum leiddi í ljós að sjónvarpsáhorf 10. bekkinga var marktækt meira en 1. bekkinga og tölvunotkun stelpna í 10. bekk var marktækt meiri en stelpna í 1. bekk. Á móti notuðu unglingar í 1. bekk marktækt meiri tíma í heimavinnu og marktækt fleiri stelpur í 1. bekk en 10. bekk unnu með skóla. Hvað matarvenjur varðar borðuðu unglingar í 1. bekk marktækt oftar skyndibitamat en marktækt sjaldnar fisk og drukku marktækt minna af mjólk en unglingar í 10. bekk. Ekki var marktækur munur á líkamsþyngdarstuðli milli árganga.

Ályktun:
Þar sem mikil breyting verður á hreyfivenjum, íþróttaþátttöku og mataræði á þessum tímamótum í lífi unglinga mætti beina meiri athygli að forvörnum fyrir einmitt þennan aldur og þannig reyna að stemma stigu við þeim neikvæðu lífsstílsbreytingum sem verða á unglingsárunum.

Hrefna Þorbjörg Hákonardóttir
Jóna Guðný Arthúrsdóttir