Offita

Að borða of mikið í einu en of sjaldan yfir daginn er, ásamt hreyfingarleysi, einn stærsti einstaki orsakavaldur þess að ástandið í vestrænum samfélögum er orðið eins slæmt og raun ber vitni.

Offita
Ef offita hrjáir þig verður þú að átta þig á því að fitan er ekki vandamálið, fitan er ekki orsök heldur einungis afleiðing. En afleiðing af hverju? Uppsöfnun fitu er oftast vegna þess að meira kemur inn í líkamann af hitaeiningum heldur en hann getur losað sig við (brennt). Þetta er einfalt kerfi sem virkar eins og plús og mínus. Ef þú borðar meira af hitaeiningum (orku) en líkaminn getur brennt safnar hann orkuforða í formi fitu en þannig geymir líkaminn umframmagn hitaeininga.

Hvað veldur offitu?
Uppsöfnun fitu er aðallega afleiðing þriggja þátta:

1.         Borðað er of sjaldan yfir daginn en of mikið í einu
2.         Hreyfingarleysi
3.         Skortur er á vöðvamassa. Já, VÖÐVAMASSA!

Hvernig getur það verið?

Mjög algeng ástæða fyrir fitusöfnun er að borða of mikið í einu en of sjaldan yfir daginn, sem veldur því að líkaminn nær of sjaldan að vinna úr hitaeiningunum. Þetta veldur því að of lítið er borðað í heildina sem aftur veldur því að líkaminn finnur að það er verið að svelta hann. Þá bregður líkaminn á það ráð að fara að safna orkuforða í formi fitu til notkunar meðan á sveltinu stendur sem veldur hraðri fitusöfnun.

Er hægt að koma í veg fyrir þetta?
Auðvelt er að fyrirbyggja þetta með því að borða minna í einu en oftar yfir daginn. Að sjálfsögðu er átt við neyslu á hollri fæðu. Þetta veldur því að meiri orka er til staðar til að sinna daglegum störfum, verkum, tómstundum og öðru sem við þurfum og viljum gera.

Blóðsykurfall?
Með þessu er líka að mestu leyti komið í veg fyrir blóðsykurfall. Blóðsykurfall á sér oftast stað um miðjan dag og veldur því að flestir grípa eitthvað nógu sætt til að bæta stöðuna STRAX! Þetta er kallað blóðsykurfall en er í raun fátt annað en orkuleysi. Líkamann vantar meiri orku sem lýsir sér í þreytu og jafnvel doða seinni hluta dags. Álíka og þegar tæki sem gengur fyrir rafhlöðum sem eru að klárast þarf samt áfram rafstraum til að ganga. Eftir því sem straumurinn dofnar hreyfist tækið hægar og hægar þar til það fær sér súkkulaðistykki, eða hvað?

Auðvelt að fyrirbyggja!
Þetta er auðvelt að fyrirbyggja hjá okkur með því að borða reglulega, holla og fjölbreytta fæðu og stunda reglulega líkamsrækt.

Samantekt
Vöðvar brenna hitaeiningum, ekki bara meðan á hreyfingu stendur heldur allan sólarhringinn. Vöðvar brenna um 25% þeirra hitaeininga sem við neytum, líka meðan við sofum! Styrkleika-,  úthaldsþjálfun og fitubrennsla hámarka hraða fitutaps. Styrkleikaþjálfun breytir líkama þínum í tryllitæki sem notar fitu sem eldsneyti án þess að þú gerir nokkuð sérstakt til þess.
(www.heilsuradgjof.is)